Félag eldri borgara á Ísafirði og nágrenni fór í sumarferð sína 12.-13.júní undir nafninu „ Tvo daga í DALI „
Ferðin tókst mjög vel og góður hópur á aldrinum 60+ til 90+. Farið var sem leið liggur um Djúp með molasopa í Reykjanesi og síðan hádegissnarl á Café Riis á Hólmavík sem var mjög vel útilátið.
Í Ólafsdal í Gilsfirði beið okkar Halla Steinólfsdóttir sem sagði sögu staðararins. Í Ólafsdal var fyrsti búnaðarskóli á Íslandi 1880 – 1907 og mjög merkur staður og er þar nýfundinn landnámsskáli frá 9.-10. öld.
Gist var að Laugum í Sælindsdal þar sem fólk naut umhverfisins og skoðaði merkt byggðasafn Dalamanna. Næsta dag var farið í hina fallegu kirkju í Hjarðarholti í Dölum þar sem sóknarpresturinn Anna Eiríksdóttir og Melkorka Benediktsdóttir tóku á móti okkur og röktu sögu þessarrar fallegu kirkju sem tók fimm mánuði að fullgera 1904 og teiknuð var af Rögnvaldi Ólafssyni fyrsta íslenska arkitektinum og var kirkjan fyrsta verkefni hans.
Heimleiðin lá um Fellsströnd þar sem komið var við á nýlegu sveitahóteli að Vogi og síðan lá leiðin um Klofning og heim að Skarði sem er heill kafli að segja frá. Á Skarði hefur sama ættin verið síðan á 11 öld. Þar var okkur sagt frá sögunni af þeim Birni bónda og Ólöfu Ríku og kirkjunni á Skarði með öllum sínum fallegu gripum.
Ferð þessi var mjög ánægjuleg í alla staði og ánægjulegt að fara aðeins út af þjóðveginum sem allt of fáir gera. Veðrið lék við okkur og strax er farið að undirbúa ferð 2020.
Sigrún C. Halldórsdóttir.