Deiliskipulag fyrir Bolafjall: lýsing

Lögð hefur verið fram skipulagslýsing fyrir deiliskipulag
Bolafjalls – áfangastaður í samræmi við skipulagslög nr. 123/2010.

Um er að ræða gerð deiliskipulags um útsýnispalla, göngustíga og bílastæði á Bolafjalli við
Bolungarvík á grundvelli verðlaunatillögu í hugmyndasamkeppni um skipulag og hönnun áfangastaðar sem haldin var árið 2018.

Með deiliskipulagsgerð er markmiðið að móta og staðfesta heildstætt skipulag fyrir áfangastaðinn og fá yfirsýn yfir þá uppbyggingu sem framundan er á svæðinu. Deiliskipulag þetta fellur ekki undir lög um umhverfismat áætlana nr. 105/2006.

Deiliskipulagssvæðið er á heiði Bolafjalls í um 600 m.y.s. um 46 ha að flatarmáli.
Bolafjall er þverhnípt með Hlíðardal og Breiðabólsdal að sunnanverðu og Stigahlið niður að sjó að norðanverðu. Á fjallinu er lóð ratsjárstöðvar Landhelgisgæslunnar, skilgreind sem öryggissvæði og er ekki innan deiliskipulagssvæðisins. Aðkoma að deiliskipulagssvæðinu er eftir núverandi vegi frá Skálavíkurvegi (630) við Hærrikross.

Þar verður gert ráð fyrir útsýnispöllum, göngustígum, bílastæðum fyrir um 15 bíla og lóð undir verslun- og þjónustu. Svæðið einkennist af ósnortnu landslagi og stórbrotnu útsýni þar sem náttúruöflin ráða ríkjum og mun öll uppbygging miðast að upplifun á svæðinu og viðkvæmni þess.

Markmið deiliskipulagsins er að móta heildstætt skipulag fyrir áfangastað á Bolafjalli,  ákvarða og skilgreina staðsetningu og legu útsýnispalla, göngustíga og  bílastæða og skilgreina lóð undir verslun- og þjónustu.

Stór hluti deiliskipulagssvæðisins er skilgreindur sem óbyggt svæði og hluti þess undir vatnsvernd, fjarsvæði.

Þeir sem gætu haft einhverjar athugasemdir eða hagmuna að gæta við deiliskipulagslýsinguna eru hvattir til að hafa samband við byggingarfulltrúa Bolungavíkurkaupstaðar. Frestur til athugasemda er frá 20. júní til 7. ágúst 2019.