Börn á Ísafirði fengu verðlaun í Hreyfivikunni

Hér má sjá nemendur 6. bekkjar sem tóku við verðlaununum fyrir hönd skólans. Með þeim á myndinni er umsjónarkennarinn Guðný Stefanía og Sigríður Lára frá HSV.

UMFÍ veitti í gær nemendum  í 6. bekk við Grunnskólann á Ísafirði 100.000 króna peningagjöf vegna góðs árangurs í nýrri grunnskólakeppni í tengslum við Hreyfiviku UMFÍ. Peningana á að nota til að kaupa trampólín á skólalóðina.

„Krökkunum fannst þessi grunnskólakeppni alveg rosalega skemmtileg. Hún hefur svo jákvæð áhrif enda mikið um hreyfingu,“ segir Guðný Stefanía Stefánsdóttir. Hún er annar tveggja umsjónarkennara 6. bekkjar í grunnskóla Ísafjarðar.  Nemendur skólans stóðu sig best í keppni á milli nokkurra grunnskóla sem UMFÍ og Kristall stóðu fyrir í Hreyfiviku UMFÍ. Þetta var í fyrsta sinn sem keppnin er haldin en hún gengur út á að nemendur hreyfa sig sem mest þeir mega í Hreyfiviku UMFÍ og fá aðra á hreyfingu með sér.

Guðný segir nemendurna hafa tekið hlaupaspretti á hverjum degi, hlaupið í kringum skólann og á íþróttavellinum. Auk þess var farið í göngutúra. „Við fórum líka í stuttar fjallgöngur af því að við erum svo nálægt fjöllunum. Síðasti dagurinn var samt sérstaklega skemmtilegur en þá fórum við í stjórnsýsluhúsið á Ísafirði og fengum starfsfólk þar til að hlaupa nokkrum sinnum á milli hæða,“ segir hún.

Ætla að kaupa trampólín

Fyrir árangurinn hlaut skólinn 100.000 króna peningagjöf frá Kristal sem afhent var við skólaslit í morgun. Það skilyrði fylgdi verðlaununum að ávísunina átti að gefa íþróttafélagi sem skólinn valdi. Héraðssamband Vestfjarða (HSV) varð fyrir valinu. Sigríður Lára Gunnlaugsdóttir, framkvæmdastjóri HSV, mætti við skólaslitin og greindi frá því að ákveðið hafi verið að gefa skólanum peningagjöfina aftur til að efla hreyfingu nemenda.

Guðný Stefanía segir þetta gleðiefni og gerir langþráðan draum nemendanna um niðurgrafið trampólín á skólalóðinni að veruleika.

Um stigakeppni var að ræða og gekk hún út á að hver bekkur þeirra skóla sem þátt tóku í henni fékk stig fyrir að halda viðburð fyrir samnemendur. Ef aðrir bekkir tóku þátt fengust tvöföld stig. Ef nemendurnir fengu þátttakendur utan skólans með sér í hreyfingu þá fengust þreföld stig. Heildarstigin voru síðan lögð saman.

 

Guðný segir nemendur skólans hlakka til þess að taka þátt í grunnskólakeppninni að ári og ætli þeir að fá enn fleiri til að hreyfa sig með sér.

Umsjónarkennararnir Ríkharður og Guðný með ávísunina góðu.
DEILA