Strandabyggð: sameining grunnskóla og leikskóla í athugun

Sveitarstjórn Strandabyggðar hefur tekið til athugunar  sameiningu leikskóla og grunnskóla og var haldinn fundur um það með foreldrum í síðustu viku.

Þorgeir Pálsson, sveitarstjóri var spurður um hvað væri nánar verið að athuga.

„Þetta er svo sem ekki ný umræða í Strandabyggð en nú er hins vegar markmiðið að kanna til hlítar kosti og galla við sameiningu. Ástæðan er fyrst og fremst; samnýting þess mikla mannauðs sem er í báðum skólum og á ólíkum sviðum.  Við sjáum t.d. fyrir okkur mikla samlegð hvað alla sérkennslu varðar.  Með sameiningu mætti nýta þennan mannauð sem við höfum fyrir alla nemendur.  Við sjáum einnig fram á að geta nýtt það húsnæði sem við höfum betur.  Það er ekki verið að hugsa um að sameina þessar einingar á einn stað, heldur þvert á móti að nýta betur báða skólana.“

Aðspurður að því hve langt umræðan væri komin svaraði Þorgeir því til að:

„Verkefnið er á þeim stað, að búið er að ræða málið á sérstöklum vinnufundi sveitarstjórnar, búið að ræða við skólastjóra beggja eininga, starfsemnenn beggja og foreldra.  Nú verður skipaður vinnuhópur sem mun samanstanda af skólastjórum beggja skóla, fulltrúa fræðslunefndar og einum fulltrúa foreldra frá hvorum skóla.  Þessi nefnd fær það hlutverk að;  kanna fyrirmyndir að svona sameiningu annars staðar frá, kanna kosti og galla þessa m.t.t. samræmingu samninga, vinnutíma o.s.frv.  Það eru mörg dæmi um svona sameiningu í kring um okkur á Vestfjörðum og víðar og við munum skoða reynslu þeirra vel.

Við reiknum með að, ef niðurstaðan er jákvæð eftir vinnu nefndarinnar, verði lagt upp með að hefja kennslu í haust í sameinuðum skóla.  Við lítum svo á að leikskólinn er í raun fyrsta skref hvers einstaklings á menntabraut viðkomandi og því er mikilvægt að samræma aðferðir og áherslu í gegn um allt skólakerfið.“