Sjúkrahóteli fylgja rýmri reglur fyrir landsbyggðina

Sjúkrahótelið við Hringbraut.

Heilbrigðisráðherra hefur undirritað nýja reglugerð um dvöl á sjúkrahóteli. Nýja sjúkrahótelið við Hringbraut er tekið til starfa og voru fyrstu gestirnir innritaðir fyrstu dagana í maí. Reglugerðin felur í sér grundvallarbreytingar sem rýmka verulega rétt fólks til að dvelja á sjúkrahóteli frá því sem verið hefur, segir í fréttatilkynningu frá Heilbrigðisráðuneytinu.

Með opnun sjúkrahótelsins og gildistöku nýju reglugerðarinnar verða grundvallarbreytingar á réttindum sjúklinga og aðstandenda þeirra. Nýmæli er að í reglugerðinni er tilgreindur réttur fylgdarmanns/fjölskyldumeðlims til að gista á sjúkrahótelinu með sjúklingi, annað hvort í sama herbergi eða sérherbergi. Enn fremur geta börn 0 – 18 ára dvalið á hótelinu í fylgd með sjúkratryggðum einstaklingi og sérstök fjölskylduherbergi eru á hótelinu sem einnig er nýjung.

Gjald sjúklings fyrir gistingu og fæði verður óbreytt frá eldri reglugerð, eða 1.440 kr. á dag fyrir sjúkratryggða 18 ára og eldri en frítt fyrir börn. Börn sem dvelja með sjúklingi á hótelinu greiða ekkert gjald fyrir gistingu. Fylgdarmaður/aðstandandi sem gistir með sjúklingi í sama herbergi greiðir 1.440 kr. á dag en 7.000 kr. ef hann er í sérherbergi.

Til þessa hefur sjúkrahótel einungis verið skilgreint í reglugerð sem tímabundinn dvalarstaður fyrir sjúklinga sem þurft hafa heilsu sinnar að vegna að dvelja fjarri heimili sínu vegna rannsókna eða meðferðar en þurfa ekki að liggja inni á sjúkrahúsi. Viðkomandi hefur greitt hluta kostnaðar vegna gistingar og fæðis, samtals 1.440 kr. á dag, en stærsti hlutinn hefur verið greiddur af sjúkratryggingum. Í reglugerð hefur hvorki verið kveðið á um rétt fylgdarmanna né fjölskyldumeðlima til dvalar á sjúkrahótelinu.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir nýju reglugerðina ramma inn þá miklu réttarbót sem tilkoma sjúkrahótelsins við Hringbraut og hugmyndafræðin að baki því felur í sér. Þá sé þetta mikilvægur liður í því að jafna aðgengi landsmanna að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu.

DEILA