Raggagarður verður lokaður til 25 maí vegna framkvæmda

Raggagarður verður lokaður til 25 maí 2019 vegna framkvæmda í garðinum.   Verið er að laga garðinn og steypa nýja gangbraut.

Raggagarður er alltaf opin frá 1. júní til 1 september ár hvert. En oft er opnað fyrr og lokað síðar, en það fer mest eftir veðurfari á vorin og haustin þegar það fer að frysta og vatnið er tekið af salernishúsinu.

Uppbyggingu lýkur 2020

Raggagarður fékk veglegan styrk frá framkvæmdasjóði ferðamannastaða í ár og því mun áhugamannafélagið Raggagarður ná að ljúka uppbyggingu garðsins árið 2020.  Helstu framkvæmdir við garðinn nú í maí og júní er að endurnýja og laga girðinguna upp með garðinum og við bílastæðið.  Einnig er verið að laga götuna upp garðinn og ný klæðning verður sett upp götuna og ný gangstétt verður steypt í næstu viku. Einnig verður smíðað sérstök borð á Boggutúni fyrir stóru grillin og smíðaðir pallar á milli kofanna þriggja.  Strandaskógur verður kláraður.

Á efra leikjasvæðinu kemur körfuróla og á neðra leikjasvæðinu kemur lítið skógarhús og röraormur fyrir þau yngstu. Vorið 2020 verður svo bílastæði garðsins malbikað og annar frágangur sem ekki mun klárast í ár.  Þó er þetta ekki tæmandi listi yfir framkvæmdirnar.

Gestir sem heimsækja garðin eru beðnir um að taka tillit til framkvæmdana frá 25. maí til júní loka. Við viljum minna gesti á það að þeir eru á eigin ábyrgð í garðinum og foreldrar og forráðamenn bera ábyrgð á börnum sínum.  Þökkum öllum fyrir þolinmæðina á meðan framkvæmdum stendur.

DEILA