Menntaskólinn á Ísafirði fær hæstu einkunn starfsmanna

Í könnun Sameykis um afstöðu starfsmanna til stofnana ríkisins, sem sagt var frá á bb.is í gær, eru fimm stofnanir á Vestfjörðum. Menntaskólinn á Ísafirði fær hæsta einkunn af þeim eða 4,15. Næst hæsta einkunn fékk Lögreglan á Vestfjörðum með einkunnina 4,07. Heilbrigðisstofnun Vestfjarða er með þriðju hæstu einkunnina af vestfirsku stofnunum eða 3,93. Í fjórða sæti varð Sýslumaðurinn  á Vestfjörðum með 3,79 og Orkubú Vestfjarða er lægst þessara fimm stofnana með 3,77.

Allmargar stofnanir fengu lægri einkunn en þær vestfirsku. Til dæmis fékk Landsspítalinn einkunnina 3,71 og Landhelgisgæslan 3,72 svo dæmi séu tekin.  Mæld eru níu atriði svo sem stjórnun, starfsandi, launakjör o.s.frv.

Allar stofnanirnar eiga það sammerkt að fá lægstu einkunnina fyrir launakjörin. Þar virðast launin hjá Sýslumanninum á Vestfjörðum vera lökust, að minnsta kosti gefa starfsmennirnir þeim þætti mjög lága einkunn. Í Menntaskólanum er jafnrétti sá þáttur sem hæsta einkunn fær, ánægja og stolt er hæst hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða  og sveigjanleikinn hjá Sýslumannsembættinu og Orkubúi Vestfjarða. Loks er stjórnunin greinilega helsti styrkur Lögregluembættisins.