Landsmenn styðja Hvalárvirkjun

Vestfjarðastofa fékk Gallup til þess að gera vandaða skoðanakönnun um afstöðu landsmanna til vatnsaflsvirkjana almennt og sérstaklega til Hvalárvirkjunar, sem áform eru um að reisa í Ófeigsfirði í Árneshreppi.

Niðurstöðurnar eru að mikill almennur stuðningur er við virkjun vatnsafls og stuðningur við Hvalárvirkjun er góður þrátt fyrir mikinn andróður síðasta ár. Hinu er ekki að neita að greining a svörunum leiðir í ljós athyglisverðan mun á afstöðu eftir aldri, tekjum og búsetu. Skýringar á þessu eru ekki gefnar og það er nauðsynlegt að finna þær því svo virðist að þjóðin sé í þessu máli  að skiptast í tvær ólíkar fylkingar.

Almenn jákvæðni í garð vatnsaflsvirkjana 71%

Þegar spurt er almennt um hversu jákvæðir eða neikvæður ertu gagnvart vatnsaflsvirkjunum eru svörin þau að 71% eru jákvæð og aðeins 8% neikvæð. Lítill munur er á afstöðu svarenda eftir búsetu, aldri, menntun eða tekjum. Eina frávikið eru að tekjulágir (minna en 400 þúsund krónur á mánuði) eru áberandi neikvæðari en aðrir. Í þessum hópi eru 26% sem er meira en tvöfalt hærra hlutfall en hjá öðrum hópum, en engu að síður eru 59% jákvæðir þannig jákvæði hópurinn er samt yfirgnæfandi.

Hvalárvirkjun: jákvæðir mun fleiri

Þegar spurt er sérstaklega um Hvalárvirkjun breytist myndin. Jákvæðnin fer úr 71% í 41% og þeim sem eru neikvæðir fjölgar úr 8% í 31%. Óákveðnum fjölgar líka úr 21% í 28%.  Þetta er augljóslega afleiðingin af mikilli umræðu um Hvalárvirkjun síðustu tvö árin og mjög harðri andstöðu sem Landvernd og hópar í tengslum við samtökin hafa staðið fyrir. Gripið hefur verið til óvenjulegra ósvífinna aðgerða og ber þar hæst skipulagða tilraun til þess að ná meirihluta í hreppsnefnd Árneshrepps með lögheimilisflutningum í hreppinn, sem reyndar mistókst. Þá hefur verið rekinn mjög villandi áróður um umhverfisáhrifin í áhrifamiklum fjölmiðlum í Reykjvík.

Niðurstaðan er samt vel ásættanleg. Þeir eru mun fleiri sem eru jákvæðir í garð Hvalárvirkjunar en hinir sem eru neikvæðir.  Greining á svörum eftir búsetu sýna algera sérstöðu Reykjavíkur. Þar eru fleiri neikvæðir en jákvæðir 32% á móti 42% en annars staðar á landinu eru þessu öfugt farið, mun fleiri eru jákvæðir í garð Hvalárvirkjunar en neikvæðir. Eru hlutföllun nærri því að vera að tvöfalt fleiri eru jákvæðir en neikvæðir.

Þegar svörin eru greind eftir tekjum, aldri og menntun auk búsetu virðist neikvæðnin vera mest hjá háskólamenntuðu fólki í Reykjavík á aldrinum 35-64 ára með tekjur á bilinu 1 milljón króna til 1.250 þúsund króna á mánuði.

Hvalárvirkjun góð fyrir Vestfirði

Í könnuninni er líka spurt að því svarendur telji að virkjunin hafi  góð eða slæm áhrif á búsetu á Vestfjörðum.  Þar eru svörin afgerandi 61% telja svo vera og aðeins 7% ekki.

Næst er spurt um áhrif á atvinnuuppbyggingu á Vestfjörðum.  Það sama er upp á teningnum 67% telja áhrifin verði góð og aðeins 5% telja að áhrifin verði slæm. Í þriðja lagi sýnir könnunin að 65% telja áhrifin verði á Vestfjörðum hvað samgöngur varðar og aðeins 5% eru á annarri skoðun. Loks eru 73% sem telja áhrifin verða góð á raforkumál á Vestfjörðum  og 5% ekki.

Í öllum þessum fjórum atriðum er yfirgnæfandi fjöldi svarenda á því að Hvalárvirkjun hafi góð áhrif á Vestfjörðum, þar á meðal töluverður hluti þeirra sem eru neikvæðir gagnvart virkjuninni.

 

Sérstaða Reykjavíkur

Reykjavík hefur algera sérstöðu í afstöðunni til Hvalárvirkjunar. Þar eru neikvæðir fleiri en jákvæðir en annars staðar á landinu er þessu öðru vísi farið. Engu að siður eru Reykvíkingar mjög á þeirri skoðun að Hvalárvirkjun hafi góð áhrif fyrir Vestfirðinga hvað varðar búsetu, atvinnuppbyggingu, samgöngur og raforkumál. Það eru 53 – 71% sem telja áhrifin góð en aðeins 5 – 9% sem telja þau slæm.

Þetta vekur upp spurninguna hvers vegna er þetta svo að margir eru neikvæðir í garð virkjunarinnar en telja jafnframt að virkjunin hafi góð áhrif á Vestfjörðum. Þýða þessi svör þá að svarendur trúa því að umhverfisáhrifin séu slæm og séu þess vegna neikvæðir í garð virkjunarinnar og þýðir þetta þá líka að neikvæðnin sé ekki endilega andstaða við virkjunina af því að menn viðurkenna jákvæðu áhrifin.  Með öðrum orðum að stuðningur við virkjunina sé í raun meiri en ætla megi út frá svörunum af því að ekki er spurt um stuðning heldir jákvæða og neikvæða afstöðu.

 

Rökrétta ályktunin er að neikvæðni í garð  virkjunarinnar sé ekki sama og andstaða og því sé stuðningurinn meiri  við virkjunina og hagsmuni Vestfirðinga en ætla mætti.

Landsmenn styðja Hvalárvirkjun.

Kristinn H. Gunnarsson

 

DEILA