Ísafjörður: Samkeppni í verslun hófst á þessum degi 1788

Hæstakaupstaðarhúsið. Ljósmynd Haraldur Ólafsson.

Sögufélag ísfirðinga vekur athygli á því að í  dag er merkisdagur í verslunarsögu Ísafjarðar. „Á þessum degi árið 1788 hófst samkeppni með verslun á Ísafirði þegar sölufulltrúinn Ernst M. Heidemann kom til Ísafjarðar á “Grindevig”, 47 vörulesta húkkortu sem Lars Michelsen Holm stýrði. Farmurinn og skipið var í eigu fjögurra Björgvinjarmanna sem Hermann D. Janson fór fyrir. Heidemann var ekki vel tekið af Altonmanninum Thiele sem fóru fyrir verslun í Neðstakaupstað en presturinn skaut skjólshúsi yfir vörurnar. Þeim var komið fyrir í kirkjunni, í torfkofa sem Heidemann lét hrófla upp og undir beru lofti. Samkeppnin var hafin og Björgvinjarmenn byggðu hús í Hæstakaupstað og lögðu grunn að þeim kaupstað sem Ísafjörður varð. Faktorshúsið er eina húsið sem stendur enn eftir og þar áttu margir eftir að versla þegar leið á 19. öldina.“

Jón Páll Halldórsson, Ísafirði birti áhugaverða grein um Ísfirzkar atorkukonur á nítjándu öld í nýjasta ársriti félagsins. Þar kemur fram að Valgerður Pétursdóttir frá Búð í Hnífsdal giftist fyrrgreindum Ernst M Heidemann árið 1790 og fluttist síðar með honum til Ólafsvíkur. Eftir að hann féll frá um 1800 hélt hún áfram verzlunarrekstrinum í Ólafsvík og þótti einhver mesti kvenkostur á Ísandi um sína daga. Snæfellingum þótti gott að eiga við hana viðskipti og blómgaðist verzlun hennar vel á meðan hennar naut við. Það færi vel á því að sögu Valgerðar Pétursdóttur yrði gerð betri skil.

Um þessa verzlunarsögu má lesa í tímaritunu Saga, 17. árgangi frá 1979.

DEILA