Fræðslumiðstöð Vestfjarða : Nýr framkvæmdarstjóri

Sædís María Jónatansdóttir hefur verið ráðinn til forstöðu Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða. Sædís hefur störf 1. ágúst.

Hún tekur við af Elfu Hermannsdóttir sem mun hverfa til annarra starfa. Á  ársfundi Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða var þessari mynd tekin af þremur forstöðumönnum Fræðslumiðstöðvarinnar.

Á myndinni er Smári Haraldsson fyrrverandi forstöðumaður, til vinstri er Elfa Hermannsdóttir núverandi forstöðumaður og til hægri er Sædís María Jónatansdóttir tilvonandi forstöðumaður.

Elfa sagði í samtali við Bæjarins besta að sjö umsóknir hefðu borist um starf forstöðumannsins, bæði af svæðinu og utna þess. Stjórn Fræðslumiðstöðvarinnar hefði ákveðið að gefa ekki upp nöfn umsækjenda.

Elfa Hermannsdóttir hóf störf hjá Fræðslumiðstöðinni í mars 2017 og mun starfa fram í júlí. Hún sagði aðspurð um hvað væri framundan hjá henni að hún hefði ráðið sig sem framkvæmdastjóra hjá Info Mentor í Reykjavík,  sem sér um skráningarkerfi í grunnskólunum.

Fjárhagsstaða Fræðslumiðstöðvarinnar batnaði verulega á síðasta ári og var það gert upp með 10,9 milljóna króna hagnaði. Elfa segir að rekstur Fræðslumiðstöðvarinnar hafi verið erfiður í mörg ár, eiginlega síðan 2010. Það sem helst skýrði góða afkomu nú væri einkum  tvennt. Annað væri að tekist hefði að sannfæra Menntamálaráðuneytið um að Fræðslumiðstöðin á Ísafirði væri að þjónustu mun fleira fólki en sambærilegar miðstöðvar annar staðar á landinu. Fræðslumiðstöð Vestfjarða hefði verið með meira en 1700 nemendur á ári þegar aðrar stöðvar hefðu verið með um 1200. Því hefði Fræðslumiðstöð Vestfjarða fengið auka fjárveitingu til þess að mæta því. Hitt atriðið væri að samið hefði verið við starfsmenntunarsjóð ASÍ um að sjóðurinn greiddi námskeið fyrir félagsmenn Verkalýðsfélags Vestfirðinga og Verkalýðs- og sjómannafélags Bolungavíkur sem starfa hjá ríki eða sveitarfélögum.

DEILA