Fjölmenni í kröfugöngum og fundum verkalýðsfélaganna

Frá baráttufundinum í Edinborgarhúsinu. Mynd: Þorsteinn Tómasson.

Vestfirðingar sóttu vel fundi og kröfugöngur á vegum Verkalýðsfélags Vestfirðinga og Verkalýðsfélags- og sjómannafélags Bolungarvíkur í gær. Dagskrá var á þremur stöðum, á Ísafirði, á Suðureyri og í Bolungavík.

Á Ísafirði var fjölmenn kröfuganga og þéttsetið í Edinborgarhúsinu á fundi VerkVest. Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður félagsins var ánægður með daginn bæði á Ísafirði og á Suðureyri. Sagði hann í viðtali við Bæjarins besta að vell hefði verið mætt og ræðumenn hefðu flutt góðar ræður. „Sigurður Pétursson var hárbeittur og pólitískur að vanda og flutti góða brýningu fyrir alla. Hálfdán Bjarki Hálfdánsson, nýr formaður FOSVEST, félags opinberra starfsmanna á Vestfjörðum var með góða ræðu þar sem hann kom inn á stöðu erlends vinnuafls á Íslands“ sagði Finnbogi.

Kröfuskiltin sem notuð voru í göngunni á Ísafirði.
Mynd: Þorsteinn Tómasson.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, alþm og fyrrverandi formaður Verkalýðs- og sjómannafélagsins Súgandi, sem sameinaðist öðrum félögum í Verkalýðsfélag Vestfirðinga, sagði það sama varðandi Suðureyri „það voru 100 manns í kröfugöngunni og 140 manns komu í kaffið.“

Frá kröfugöngunni á Suðureyri.
Mynd: Ævar Einarsson.

Í Bolungavík stóð Verkalýðs- og sjómannafélag Bolungarvíkur fyrir dagskrá í Félagsheimilinu og fluttu þau Hrund Karlsdóttir, formaður félagsins og Magnús Már Jakobsson, fyrrverandi formaður Verkalýðsfélags Grindavíkur ræður. Auk þess var boðið upp á tónlistaratriði og fleira.  Hrund sagði að aðsókn hefði verið mjög góð og  fudnurinn hefði gengið vel.

Frá dagskránni í Bolungavík.
Mynd : Sigríður Runólfsdóttir.
DEILA