Fiskeldisfrv: stjórnarandstaðan bíður átekta

Kolbeinn Óttarsson Proppe, alþm.

Frumvarp sjávarútvegsráðherra um fiskeldi hefur verið afgreitt úr atvinnuveganefnd Alþingis. Frumvarpið gerir ráð fyrir að lögfesta áhættumat Hafrannsóknarstofnunar og færir stofnunni ákveðið stjórnsýsluvald sem getur stöðvað áform um laxeldi í Ísafjarðardjúpinu.

Stjórnarflokkarnir og Miðflokkurinn standa að meirihlutaáliti, en Samfylkingin, Píratar, Viðreisn og Flokkur fólksins hafa ekki enn gefið neitt upp um afstöðu sína og hafa ekki skilað nefndaráliti.

Albertína Elíasdóttir er fulltrúi Samfylkingarinnar í nefndinni og var innt eftir afstöðu sinni  til málsins. Hún svaraði því til að það muni koma fram minnihlutaálit, væntanlega á mánudaginn. „Það verður mögulega smávægileg breyting á meirihlutaálitinu, við erum að hinkra eftir að heyra hvort hún verði áður en við leggjum okkar fram.“ sagði Albertína í svari sínu.

Kolbeitt Proppe (Vg) er einnig í atvinnuveganefndinni og hann var inntur eftir hugsanlegum breytingum á tillögum meirihlutans, en nokkur titringur hefur verið vegna þeirra sérstaklega með hliðsjón af fiskeldi í Ísafjarðardjúpi. Vilja fiskeldisfyrirtækin og sveitarstjórnarmenn á Vestfjörðum fá skýrari línur í löggjöfina þannig að enginn vafi verið uppi. Kolbeinn hefur haft nokkra forystu í málinu fyrir stjórnarþingmenn.

Engin svör hafa borist frá Kolbeini.

 

 

DEILA