51% stuðningur við Hvalárvirkjun í Norðvesturkjördæmi

Frá Ófeigsfjarðarheiði. Mynd:Verkís.

Stuðningur við Hvalárvirkjun er mestur í Norðvesturkjördæmi. Þar eru 51% sem eru hlynnt virkjuninni, 26% eru hvorki né og 23% eru andvíg. Norðvesturkjördæmið nær yfir Vesturland, Vestfirði og Norðurland vestra og búa á Vestfjörðum um 22-23%  af íbúafjöldanum.

Reykjavík sker sig úr

Eina svæðið þar sem fleiri eru andvígir en þeir sem styðja Hvalárvirkjun er Reykjavík. Þar eru 32% með, 43% á móti og 26% eru hvorki né í afstöðu sinni.

Í Suðvesturkjördæmi, það er sveitarfélögunum kringum Reykjavík, eru 44% sem styðja virkjunina, 29% á móti og 26% hvorki né. Í hinum kjördæmunum Norðausturkjördæmi og Suðurkjördæmi eru stuðningurinn 48% og 43% og andstaðan 23% og 21%.

Á meðfylgjandi mynd má líka sjá að 85% þeirra sem eru almennt neikvæðir gagnvart vatnsaflsvirkjun eru andvígir Hvalárvirkjun. Hins vegar eru 20% þeirra sem eru jákvæðir almennt fyrir vatnsaflsvirkjun neikvæðir gagnvart Hvalárvirkjun og 22% eru hvorki né. 57% þeirra sem eru almennt jákvæðir fyrir vatnsaflsvirkjun eru hlynnt virkjuninni. Þar kemur líka fram að fjölmiðlaumfjöllun um Hvalárvirkjun hefur haft áhrif í þá veru að auka andstöðu.

DEILA