Við göngum svo langt í gæðum.

Mætti ætla að bréfritara þessum hefði sigið larður eftir að hafa fengið snuprur frá sérlegum upplýsingafulltrúa stórfyrirtækisins HS-Orku. Hann veit svolítið um rafmagn einkum eftir að hann gerði heimildakvikmynd um rafstöðvarsmiði í Vestur-Skaftafellssýslu á níunda áratugnum. Hann telur sig hafa bjargað nokkrum menningarverðmætum sem svo eru kölluð með gerð myndarinnar. Frumkvöðullinn Bjarni Runólfsson í Hólmi í Landbroti var þá löngu farinn af þessum heimi. Sex rafstöðvarsmiðir reistu 213 rafstöðvar víðsvegar um land, smíðuðu 172 túrbínur, flestar úr togarajárni og var uppsett afl þessara stöðva 2 Megawött. Margar ganga enn þá eins og eilífðarvélar. Það gat eiginlega ekki farið hjá því að ég lærði eitthvað um rafmagn á þessum árum þegar ég skoðaði tugi rafstöðva og talaði við bændur og búalið og einhverjar skófir hafi setið eftir innan á hauskúpunni. Og fúnksjónin er sú sama hvort sem þú virkjar tvö megawött eða 55.

Orkuþörf Vestfirðinga er um 30 Megawött sem fæst með heimavirkjunum, Vesturlínu og olíukötlum ef þess þarf með. Hvalárvirkjun á að skila 55 Megawöttum og ljóst að aðeins brot af því kemur til með að gagnast Vestfirðingum hvað sem allir sérlegir upplýsingafulltrúar segja. Það verður ekki fyrr en í nokkuð fjarlægri framtíð sem það kemur í ljós nákvæmlega. Svo er það spurning hvort nýir eigendur, Ástralir, verði reiðubúnir að setja klæðningu utan á Finnbogastaðaskóla og leggja í vegagerð norður í Árneshrepp ásamt því að takast á við frekari hafnargerð á Norðurfirði.(stórskipabryggja?) Látum ljósleiðarann og hitaveituna liggja á milli hluta.

Það var ekki meiningin að þetta bréf frá Boga ætti að fjalla um rafmagn heldur manneskjur sem er dýrmætara umfjöllunarefni en fordjörfun á náttúruvéum. Umræðan snýst nú mjög um flóttafólk og til þess tekið að nemendur í Hagaskóla í Reykjavik safna undirskriftum til stuðnings efnilegri skólasystur sinni frá Afganistan svo hún megi verða íslenskur þegn. Bravó fyrir þeim. Íslendingar eiga sér nefnilega býsna skuggalega sögu sem að þessu lýtur. Ég var að taka til á skrifborðinu mínu fyrir þremur dögum og koma þá upp í hendurnar á mér listar um eftirlit með Þjóðverjum á Íslandi frá því í apríl 1940. Innrás Breta var 10. maí og fróðlegt að vita hvort íslensk stjórnvöld hafi ekki rétt Bretum listann með nöfnum og heimilisföngum Þjóðverja á Íslandi, geriði svo vel. Einnig spratt upp úr skrifborði mínu listi yfir Þjóðverja sem breska herliðið hafði sent til eyjunnar Manar við Bretlandsstrendur vorið 1940 í kjölfar hernáms íslands þann 10. maí. Einnig nafnalisti yfir Íslendinga sem sendir voru utan síðar þar á meðal nokkrir Vestfirðingar sem kunnugt er.

Það var með fyrri verkum Finns Jónssonar dómsmálaráðherra í Nýsköpunarstjórninni haustið 1944 að panta lista með nöfnum þeirra Þjóðverja sem sendir voru úr landi til eyjarinnar Manar og nöfnum Íslendinga sem fóru till London. Þeir voru reyndar komnir til baka á þessum tíma samkvæmt herverndarsamningnum við Bandaríkin árið 1941.

Þjóðverjarnir á Mön máttu dúsa þar allt stríðið og voru sendir á sinn fæðingarhrepp í Þýskalandi í stríðslok. Þegar kom að því að fjölskyldumenn frá Íslandi vildu komast heim voru þeim allar bjargir bannaðar. Einn af þeim var blikksmiðurinn Walter Knauf sem komið hafði til Íslands árið 1934 til að

vinna við síldarverksmiðjuna á Djúpuvík í Strandasýslu. Hann átti þá þegar konu og átta ára gamalt barn og hafði nýlega fest kaup á húsinu Tangagötu 20 á Ísafirði. Það er eiginlega efni í heila sögu að segja frá viðskiptum eiginkonu hans, Dóru Knauf, við dómsmálaráðuneytið og fleiri aðila til að maður hennar fengi að komast til Íslands eftir stríðið. Walter Knauf fékk aldrei það leyfi hjá íslenskum stjórnvöldum. Árið var orðið 1947 og kom hann með þýskum togara og var skotið á land í jullu upp í fjöru í Önundarfirði. Með honum í för var Hans Hesler bakari sem einnig átti fjölskyldu á Ísafirði og hafði heldur ekki fengið landvistarleyfi!! Skilríkjalausir voru þeir meðhöndlaðir sem glæpamenn á lögreglustöðinni á Ísafirði en að lokum sleppt heim til konu og barna enda engar fangabúðir til á staðnum sem áttu við þennan málaflokk og flókið að senda mennina aftur til Þýskalands.

Mér er einatt hugsað til þessara trakteringa þegar fréttir berast af baráttu flóttamanna sem komnir eru til Íslands og náttúrlega sendir til baka ef þess er nokkur kostur. Vísað í svokallað Dyflinarsamkomulag þar sem flóttafólki er vísað til síðasta lands sem það dvaldi í fyrir Íslandsförina. Það er gert með hraði svo fólkið myndaðii ekki tengsl eins og stúlkan í Hagaskóla frá Afganistan og foreldrar hennar. Svo er tvískinningurinn mikill að svonefndum kvótaflóttamönnum er tekið með kostum og kynjun og Íslendingar berja sér á brjóst og tíunda aumingjagæði sín. Flestir láta sér fátt um finnast um örlög þessara meðbræðra okkar sem eru að leita að betra lífi eins og þetta er gjarnan orðað og halda bara áfram að tátla hrosshárið sitt. Við göngum svo langt í gæðum að guð má vara sig, orti Örn Arnarson í rebbakvæðinu.

Til að ljúka þessu bréfi má geta þess að í nafnalistanum um Þjóðverja búsetta á Íslandi frá í apríl 1940 var getið um starfsstéttir manna og kvenna með þeirri undantekningu að þeir sem voru af gyðingaættum voru engrar starfsstéttar heldur bara Gyðingar.

Með vorkveðju

Bogi