Tvöfalt kerfi og lítið rými fyrir nýsköpun

Lokaðar kvíar.

Fyrir dyrum stendur að gera grundvallar endurskoðun á núverandi lögum um fiskeldi. Það er vissulega margt til bóta og annað sem þarf að útfæra betur. Eitt vil ég nefna hér í því sambandi. Það er hvernig á að koma á fót tvöföldu kerfi við úthlutun eldissvæða. Annars vegar er stefnt að því að útboð á strandsvæðum þar sem burðarþol hefur ekki verið reiknað. Hins vegar verður óbreytt kerfi í fjörðum og flóum þar sem burðarþol liggur fyrir. Þar verður eldissvæðum úthlutað eftir kerfinu „fyrstur kemur fyrstur fær“ og gildir þá dagsetning hvenær fyrirtæki hafa tilkynnt áform sín. Gott dæmi um slíkt strandsvæði er Ísafjarðardjúp. Þar hafa nokkur fyrirtæki tilkynnt um áform en enn sem komið er hafa engin framleiðsluleyfi verið gefin þar út. Aðeins fyrirtækið Hábrún ehf hefur gilt starfs- og rekstrarleyfi í Ísafjarðardjúpi. Fyrirtæki hafa tilkynnt áform á fjölmörgum eldissvæðum og gera ráð fyrir að staðsetja eldiskvíar bæði á opnum hafsvæðum í Djúpinu og inni í skjólsælum fjarðabotnum. Fyrirtækið AkvaFuture ehf hefur tilkynnt um sínar fyrirætlanir og hyggst hefja laxeldi í lokuðum eldiskvíum í fjórum skjólsælum innfjörðum Djúpsins. Þar mun fyrirtækið þurfa aðgang að 2,4 MW rafafli og orku sem nemur um 17 GWst á ári.

Það er reginmunur á umhverfisskilyrðum eldissvæða og miklu ræður þar hvort svæðin eru staðsett á opnum hafsvæðum eða á skjólsælum svæðum innfjarða. Eitt er að í fjarðarbotnum getur  myndast lagnaðarís yfir vetrartímann, sem skapar stórhættu fyrir fiskeldi í opnum hefðbundnum eldiskvíum en hefur lítil áhrif á lokaðar eldiskvíar, AkvaFuture. Sjávardýpið innfjarða er víða takmarkað, sem veldur minni dreifingu á úrgangi og getur því orðið til þess að úrgangurinn myndi botnfall á staðbundnum svæðum undir kvíum. Þar að auki er mikll munur á öldufari og sjávarstaumum innst í fjörðum en á opnari hafsvæðum. Reynsla um þessa þætti talar sínu máli í innanverðum Arnarfirði, Patreksfirði og Tálknafirði. Nú er laxeldi þar aðeins stundað utarlega í fjörðunum og óvíst hvort úthlutuð eldissvæði í fjarðarbotnum verði nokkurtíma notuð aftur fyrir opnar hefðbundnar eldiskvíar. Sambærileg reynsla er frá fiskeldi í Álftafirði og Seyðisfirði í Ísafjarðardjúpi. Lagnaðarís hefur skapað þar stórhættu á eldissvæðum innarlega í fjörðunum.

Strandsvæði Íslands er takmörkuð auðlind og afar mikilvægt að burðarþol þeirra verði nýtt vel til að hámarka verðmætasköpun og skapa fleiri störf í okkar brothættu byggðum. Það er ekki góð stjórnsýsla eða nýting á okkar takmörkuðu strandsvæðum ef þeim verður úthlutað til þess eins að standa ónotuð vegna rekstraráhættu. Nú þegar hefur verið úthlutað leyfum til framleiðslu á 60 þús tonnum af laxi hérlendis og ársframleiðslan er aðeins 15 þús tonn. Núverandi eldisfyrirtæki hafa því  rými til að vaxa og dafna og þróa sínar eldisaðferðir. Opin og gegnsæ úthlutun svæða ætti ekki að ógna tilvist þeirra.

Fyrirliggjandi lagafrumvarp tekur ekki mið af þeirri miklu framþróun sem hefur átt sér stað í eldistækni undanfarin ár. Mikilvægt er að við endurskoðun laga um fiskeldi verði horft til framtíðar, þar sem áhersla er lögð á nýsköpun og sjálfbærni. Það er ekkert sem mælir með því að hafa tvöfalt kerfi í úthlutun eldissvæða og láta framgang vinnu við burðarþol ráða um stjórnsýslumeðferð. Burðarþol má ekki hafa þessi útslitaáhrif á málsmeðferð. Í báðum tilfellum hafa fyrirtæki tilkynnt um áform sín og stjórnvöld hafa á engan hátt upplýst um hvað rökstyður ólíka málsmeðferð og stjórnsýslu. Við endurskoðun laga um fiskeldi hafa stjórnvöld kjörið tækifæri að stýra úthlutun og nýtingu strandsvæða með tilliti til nýtingar svæða, umhverfissjónarmiða og sjálfbærni eldisaðferða. Á þessari stund er ekkert sem bendir til að stjórnvöld muni nýta þetta tækifæri til þess.

Jón Örn Pálsson,

verkefnisstjóri hjá AkvaFuture ehf

 

DEILA