Strandveiðar lögfestar til ótiltekins tíma

Smábátar í Flateyrarhöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Alþingi samþykkti í ný lög um strandveiðar. Eru þau í megninatriðum samhljóða lögunum um strandveiðar sem giltu í fyrra, en þau lög voru runnin út. Það var atvinnuveganefnd Alþingis sem flutti málið en ekki viðkomandi ráðherra eins og venja er með stjórnarmál. Að sögn Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur, formanns atvinnuveganefndar er fest í sessi það fyrirkomulag sem gilti í fyrra að hverju strandveiðiskipi verði heimilt að stunda strandveiðar í 12 daga innan hvers mánaðar í fjóra mánuði á ári, mánuðina maí, júní, júlí og ágúst.

Engar breytingar eru gerðar á svæðaskiptingu. Ráðherra mun áfram kveða nánar á um skiptingu landsvæða með reglugerð og við þessi svæði miðast skráning skipa. Sú breyting verður gerð að aflaheimildum verður ekki lengur skipt á landsvæði eða tímabil heldur miðað við að heimilt verði að stunda veiðar frá öllum landsvæðum þar til veitt hefur verið það heildaraflamagn sem ráðstafað er til strandveiða samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur um strandveiðar fyrir hvert ár.

Samkvæmt lögunum er gert ráð fyrir að Fiskistofa skuli stöðva strandveiðar þegar sýnt er að heildarafli strandveiðiskipa, að frátöldum ufsa, fari umfram það magn sem ráðstafað er til strandveiða samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur um strandveiðar fyrir hvert ár.

Í áliti atvinnuveganefndar segir að í lok strandveiðitímabilsins 2019 muni Byggðastofnun gera ítarlega úttekt á reynslu síðustu tveggja strandveiðitímabila. Niðurstöðuna mun atvinnuveganefnd nota til að vinna að frekari endurbótum á strandveiðikerfinu í samráði við strandveiðimenn á svæðunum fjórum og hagsmunasamtök þeirra fyrir strandveiðitímabilið 2020.

Fáir sjálfstæðismenn studdu málið 

Athygli vekur að stuðningur frá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins var ekki mikill. Aðeins fimm þingmenn flokksins af 16 greiddu því atkvæði. Báðir ráðherrar flokksins, formaður og varaformaður flokksins, voru fjarverandi við atkvæðagreiðsluna auk fleiri og þrír þingmenn sátu hjá við atkvæðagreiðsluna. Einungis þrír ráðherrar greiddu frumvarpinu atkvæði sitt, en aðrir voru fjarverandi. Það voru báðir ráðherrar Vinstri grænna, Katrín Jakobsdóttir og Svandís Svavarsdóttir og Ásmundur Einar daðason, ráðherra Framsóknarflokksins.

DEILA