Skólahljómsveitin frá Núpi snýr aftur vestur

Fyrir 50 árum kom fram á Núpi í Dýrafirði skólahljómsveitin Rassar, eins og þeir kölluðu sig og spiluðu á dansæfingu í skólanum og áttu eftir að gera það í hverjum mánuði þann veturinn.

Á Núpi var þá rekinn öflugur framhaldsskóli með 2.,3. og 4. bekk á gagnfræðastiginu og tveimur bekkjardeildum í landsprófi. Alls voru um 100 nemendur þá í skólanum. Þá var Arngrímur Jónsson skólastjóri.

Þeir sem þarna barnungir stigu fram á sviðið voru Rúnar Þór Pétursson frá Ísafirði og þrír drengir að sunnan, þeir   Egill Ólafsson, Baldvin Thorarensen og Benedikt Helgi Benediktsson.   Baldvin kom bara fram í fyrsta skiptið en eftir það voru aðeins þrír í hljómsveitinni.

Egill Ólafsson varð síðar landskunnur söngvari og leikari og hann heldur tryggð við Vestfirði líkt félagar hans Rúnar Þór og Benedikt. Egill segir að þetta sé í fimmta sinn sem þeir koma vestur um páskana og spila og syngja sér og öðrum til gamans.

Það er létt yfir þeim og tilhlökkun þegar blaðamaður Bæjarins besta hitti þá í Skúrnum í gærkvöldi, jafnvel þótt knattspyrnan tæki aðra stefnu en helst var óskað eftir.

Skólahljómsveitin Rassar frá 1969 verður í kvöld í Húsinu á Ísafirði og annað kvöld á Þingeyri og það verður enginn svikinn af því að skemmta sér með þeim.