Skerðingar á framlögum til Jöfnunarsjóðs eru áfall

Frá landsþingi sambands íslenskra sveitarfélaga. Mynd : samband.is

Stóru málin á XXXIII. landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem fram fór föstudaginn 29. mars sl. voru húsnæðismál, samgöngumál og kjaramál. Af einstökum málum báru fyrirhugaðar skerðingar á framlögum til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og veggjöld einna hæst.

Landsþingi hófst að venju með ávarpi formannsins Aldísar Hafsteinsdóttur. Vék hún  m.a. að stöðu mála á vinnumarkaði, sameiginlegri kjarastefnu ríkis og sveitarfélaga og væntri útgjaldaaukningu vegna nýrra kjarasamninga. Þá stiklaði hún einnig á eflingu sveitarstjórnarstigsins, með það fyrir augum að sveitarfélög geti tekið við áskoranir framtíðarinnar og auknu samráði og samstarfi ríkis og sveitarfélaga vegna opinberrar þjónustu.

Varðandi jöfnunarsjóðsmálið sagði Aldís, að ráðgerðar skerðingar á framlögum til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga væru áfall, bæði fyrir einstök sveitarfélög og einnig samstarf ríkis og sveitarfélaga.

Alls tóku 111 landsþingsfulltrúar frá 57 sveitarfélögum þátt í landsþinginu. Að stjórnarmönnum og öðrum þingfulltrúum meðtöldum sátu 159 manns þingið.Landsþing hefur æðsta vald í málefnum Sambands íslenskra sveitarfélaga. Það kemur saman árlega.

Samþykkt landsþingsins umskerðingu framlaga í jöfnunarsjóðinn er í heild sinni eftirfarandi:

Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga krefst þess að þau óásættanlegu áform sem fram koma í fyrirliggjandi tillögu að fjármálaáætlun ríkisins fyrir árin 2020-2024 um að skerða framlög ríkissjóðs til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga næstu tvö ár um 3,3 ma.kr. verði dregin til baka.

Landsþingið minnir á að í 11. gr. laga um opinber fjármál er kveðið á um að við mótun fjármálaáætlunar skuli ráðherra leita samkomulags við Samband íslenskra sveitarfélaga. Engar viðræður fóru fram um málið heldur var fulltrúum sveitarfélaga tilkynnt um þessa ákvörðun. Landsþingið telur vinnubrögð fjármála- og efnahagsráðuneytisins í málinu vera með öllu óásættanleg enda væri þannig verið að skapa hættulegt fordæmi um að ríkisvaldið grípi einhliða inn í lögbundna tekjustofna sveitarfélaga. Ljóst er jafnframt að fyrirhuguð skerðing framlaga jöfnunarsjóðs kemur misjafnlega niður á sveitarfélögum og bitnar harðast á sveitarfélögum utan höfuðborgarsvæðisins.

Landsþing sambandsins fer fram á að ríkisstjórnin og Alþingi tryggi að samskipti ríkis og sveitarfélaga verði á jafnræðisgrundvelli þar sem virðing og traust ríki á milli aðila. Slík samskipti hafa verið að byggjast upp undanfarin ár með góðum árangri, en er nú ógnað af hálfu ríkisins með því frumhlaupi sem landsmenn hafa orðið vitni að í þessu máli.

Landsþingið lýsir sambandið engu að síður tilbúið í viðræður um málið. 

DEILA