Samgönguráðuneytið: tveir styrkir til Vestfjarða

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur úthlutað styrkjum að upphæð 71,5 milljónum króna til sjö verkefna á vegum sex landshlutasamtaka sveitarfélaga. Styrkjunum er ætlað að efla byggðir landsins og er úthlutað til sértækra verkefna á sóknaráætlunarsvæðum fyrir árið 2019 í samræmi við stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018 – 2024.

Tveir af styrkjunum sex eru til verkefna á Vestfjörðum.

  • Strandakjarni – undirbúningur og verkefnisstjórn. Fjórðungssamband Vestfirðinga hlýtur styrk til að undirbúa þjónustumiðstöðvarinnar Strandakjarna er hugsuð fyrir fjölbreytta starfsemi undir sama þaki á Hólmavík. Markmið verkefnisins er að standa undir þjónustu við íbúa með rekstri verslunar og annarri grunnþjónustu. Verkefnið er styrkt um 4.300.000 kr. á árinu 2019. Frá þessu verkefni hefur verið sagt áður á bb.is.
  • Vestfirðir á krossgötum – uppbygging innviða og atvinnulífs. Fjórðungssamband Vestfirðinga hlýtur styrk til að taka saman gögn til að byggja á ákvarðanatöku og stefnumótun varðandi þær breytingar sem framundan eru vegna samgöngubóta og breytinga í atvinnulífi, t.d. fiskeldi. Gera á viðhorfskönnun og greiningu á samfélagslegum áhrifum samgöngubóta og á áhrifum fiskeldis.  Verkefnið er styrkt um 12.000.000 kr. á árinu 2019.

Sigríður Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu var innt eftir því hvað ætti að nota styrkinn í og vísaði hún til sérstakrar greinargerðar um verkefnið.

Þar stendur að verkefnið „snýst um að tryggja að gögn og þekking sem þarf til að leiða uppbygginguna verði unnin svo sem greining á þörfum samfélaga og fyrirtækja vegna fiskeldisuppbyggingar, samþættingu og samhæfingu skipulaga og áætlana innan svæðisins“ og að „tilgangur þeirrar greiningarvinnu sem gert er ráð fyrir í þessu verkefni er að leggja grunn að því að sveitarfélögin saman geti betur leitt framvindu næstu ára og hafi til þess áreiðanleg gögn.“

Markmið verkefnisins eru svo dregin saman í sex tölusett atriði:

  1. Að greina samfélagsleg áhrif og væntingar til fiskeldis á Vestfjörðum.
  2. Að greina samfélagsleg áhrif og væntingar til samgöngubreytinga og gera aðgerðaáætlun fyrir öll svæði Vestfjarða og um möguleika á auknu samstarfi milli svæða í kjölfar samgöngubóta.
  3. Að móta framtíðarsýn fiskeldisuppbyggingar til næstu 10-15 ára og stilla upp sviðsmyndum.
  4. Að láta greina og stilla upp fjárfestingarmöguleikum í tengslum við þjónustu við fiskeldi á svæðinu.
  5. Að greina og meta þörf á þjálfun og menntun til næstu 10-20 ára með tilliti til ofangreindra breytinga og vegna fjórðu iðnbyltingarinnar
  6. Að auka samtal og samstarf sveitarfélaga og fyrirtækja með kynningum og umræðum um niðurstöður þeirra greininga sem gerðar verða.