Nemendur til Aþenu: samstarf í Erasmus+

Vestfirskir nemendur á Akropolis hæð í Aþenu.

Grunnskólinn á Ísafirði og Grunnskólinn á Suðureyri hafa í vetur verið í Erasmus+ samstarfi, það samstarf er styrkt af Evrópusambandinu og njótum við Íslendingar sömu réttinda og þjóðir ESB í þessu efni. Þetta tiltekna samstarf er við skóla í Svíþjóð, Hollandi, Grikklandi og Búlgaríu.

Nemendur skólanna vinna verkefni þar sem fjallað er um mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, þeir kryfja hverja grein yfirlýsingarinnar og velta þeim fyrir sér undir ólíku sjónarhorni, bæði eftir þjóðlöndum og tímabilum.

Markmið verkefnisins eru margþætt og felast meðal annars í að veita nemendum tækifæri til að byggja upp skilning sinn á því að mannréttindi, eins og við þekkjum þau, eru ekki sjálfsagður hlutur í öllum samfélögum og að það hefur kostað mikla baráttu að öðlast þessi réttindi. Verkefnin eru unnin í heimaskólunum og svo fara fulltrúar nemenda í heimsóknir og kynna verkefnin og fá fræðslu frá öðrum þátttakendum.

Nú í lok mars fóru fimm nemendur í 9. bekk, frá Grunnskólanum á Ísafirði og Grunnskólanum á Suðureyri, í heimsókn til jafnaldra í Aþenu þar sem þeir hittu, að auki, nemendur frá Svíþjóð, Hollandi og Búlgaríu. Í þessari heimsókn var verið að kynna verkefni nemenda eftir vinnu með fimm fyrstu greinar mannréttindayfirlýsingarinnar.

Í Grikklandi var skipulögð dagskrá í fjóra daga þar sem grikkir sýndu okkur meðal annars öll helstu menningarverðmætin sem eru í þeirra vörslu um leið og þeirr fræddu okkur um hið forna gríska lýðræði sem segja má að sé fyrirmynd að öllum lýðræðissamfélögum nútímans.

Aukaafurð slíks verkefnis fyrir nemendur er svo efling sjálfsstraust og tungumála kunnáttu. Það reynir á að vera í samskiptum á erlendu máli um efni sem er manni ekki sérlega tamt og það að sjá að maður getur tekist á við hluti sem sýnast ógnvekjandi við fyrstu sýn eflir sjálfstraustið. Frekari upplýsingar um verkefnið má finna á vefslóðinni http://livinginachallengingworld.hostingerapp.com/

Jóna Benediktsdóttir,

grunnskólakennari Ísafirði

DEILA