Með stafinn í hægri

Fátt er meira aknúast út í en heilbrigðiskerfið. Eins og það sé eitthvert eitt kerfi. Það er í mörgum deildum og með öllu galið að setja það undir einn hatt. Þó er einn hattkúfur á öllu saman og heitir Sjúkratryggingar Íslands. Megnið af starfsemi þess fer í að grisja beiðnir um ferðakostnað fólks á landsbyggðinni. Ég veit ekki hvað yrði um þessa starfsemi, ef fólk á landsbyggðinni hætti að veikjast og þyrfti ekki lengur suður. Kom að því að bréfritari þessi mátti fara suður til læknis. Sá læknir er hýstur á Akranesi. Átti ég að koma stundvíslega klukkan 11:40. Ég sem bý í Hnífsdal fór þá að reikna út hvernig haganlegast væri að komast suður. Flug með innanlandsflugfélaginu sem engin man hvað heitir er löngu afgreitt mál og er aðeins fyrir bæjatstjórana og forstjóra Orkubúsins og sett á reikning. Almenningur reynir að keyra og fer oft í tvísýnu vetrartímann. Jæja. Ég ákvað að keyra og fyrsta hugsunin að hafa með sér nóg af snæri til að lenda ekki í sömu hrakningum og Jón Hreggviðsson á Rein sem aldrei átti snæri og varð því að stela sér snærisspotta í færi. Af því gerðist mikil saga og skemmtileg. Ekki síst þegar Jón var að brjóta í eldinn fyrir frú Mettu, konu Árna Magnússonar í Kaupmannahöfn. Og spurði hana um lengd viðarbútanna, hvort hún vildi kannski hafa þá eins og meðal hrossskökul? Jón lá nefnilega fyrir opnu í tugthúsinu og ekki búið að finna upp ökklabandið eins og sett var á íslenska fjárglæframenn eftir hrunið. Ég fyllti skottið á Lettanum af snæri og ók svo af stað eftir að hafa fundið gistiheimili í Búðardal. Þar svaf ég of nóttina í góðu yfirlæti og vaknaði snemma til að eindaga mig ekki á Akranes. Ég ók léttan suður á Skaga og allt gekki að óskum nema ég ætlaði aldrei að finna sjúkrahúsið. Akranes er nefnilega orðin borg. Læknirinn skyldi skoða á mér vinstri fótinn með tilliti til liðskiptingar. Stuttur aðdragandi var að förinni og trúði ég því að skammur tími liði til aðgerðar. Læknirinn var alvarlegur og ábyrgur maður af höfuðborgarsvæðinu í snjakahvítum, stífuðum slopp og varð ekki bros á vör allan tímann sem hann var að toga í skankana á mér. Hafði þegar fengið röntgenmyndir af hnénu og spurði svo hvoru megin ég styddist við stafinn. Hægra megin, það var rétt. Mér fannst spurningin svolítið niðurlægjandi. Ég hætti alveg við að spyrja hann um nýja liðinn, hvort hann yrði frá SKF eða kannski amerískur frá TIMKEN. Slík hótfyndni átti alls ekki við. Ég hafði jafnvel ætlað að segja lækninum að ég hefði marga hildi háð við hjöruliði allt frá unglingsárum og fram á þennan dag. Einna harðastur var slagurinn við hjöruliðskross í Ford Econoline 350. Hann passaði ekki saman við nein viðmið í katalógum með því að nýr flans hafði verið soðinn á drifskaftið og krossinn sem fékkst í Fálkanum hæfði skriðdreka úr seinna stríði. Hann var til allrar lukku með smurkoppi. Í Fálkanum fást ótrúlega gamlir og sjaldséðir varahlutur sem kunnugt er við vægu verði.

Ég hrökk upp úr þessum hugleiðingum þegar doktorinn sagði að biðin væri eitt ár eftir nýjum hjörulið. Nú var eins gott að eiga nóg af snæri hugsandi til Ólafs Ketilssonar þess merka bílstjóra sem var með snæri á báðum fótum áður en yfir lauk til að geta lyft löppunum af pedölunum. Engin vandræði að stíga fast á þá sömu pedala. Maðurinn í stífaða sloppnum endaði svo með að fylla út staðfestingu á komu til lækinis:

Undirritaður læknir vottar að nefndur sjúklingur naut sérfræðilegrar meðferðar skv. ofanskráðu vegna veikinda sem getið er í áður útgefinni skýrslu vegna ferðakostnaðar eða staðfestingu á nauðsynlegri ferð sjúklings til meðferðar utan heimahéraðs.

En ég var enn heima í Norðvesturkjördæmi? Þar geta Sjúkratryggingarnar líklega hankað mig? Og þrátt fyrir kansellístílinn er sú áðurútgefna skýrsla alltaf skrifuð á eftir hinni skýrslunni, frá Akranesi í þessu tilfelli.

Ég ók skætinginn til Reykjavíkur með þennan dóm við hliðina á mér á sjálfskiptum Sévrolet með krúsi. Þarf ekki nema snæri á aðra löppina ef í harðbakkan slær, Óli þurfti tvo spotta á rútunni forðum.

Svo kom að Vesturförinni. Ég átti erindi norður á Strandir og mátti því keyra Holtavörðuheiði og beygja út af hjá Staðarskála. Áður en til þessa kom málaði ég skrattann rækilega á vegginn. Spáð var hvassvirði og rokum undir Hafnarfjalli, hann gat líka oft verið hvass á Heiðinni og því lagði ég snemma af stað til að vera á undan veðrinu. Blakti ekki hár á höfði alla leiðina og sól skein í heiði. Ég hafði allan fyrirvara á vegunum norður Strandir og hvernig Lettinn mundi haga sér á malarvegum. Búið að malbika megnið af leiðinni og malarvegir ágætir. Þá var Sévrolettinn stórfinn á mölinni. Kom við á góðbýli einu og heimti þar stórmerkileg og einstök skjöl frá seinni heimsstyrjöld sem ég hef legið í síðan ég kom heim.

Nú er bara eftirleikurinn eftir að rukka Sjúkratryggingar Íslands. Til þess þarf tvö vottorð sem að framan greinir. Á tímum rafrænna samskipta má ég fara inn á sjúkrahús og staulast þar inn með stafinn í hægri hendi, nota bene. að sækja vottorðið í glerinu. Þá ek ég niður í bæ með hvorutveggja vottorðin og þarf að haltra inn í Stjórnsýsluhúsið og upp á þriðju hæð. Þangað gengur lyfta bæði upp og niður. Afhendi þar plögginn yfir búðarborðið. Takk fyrir. Þetta verður lagt inn á reikninginn þinn ef…. Hva?

Í lyftunni á niðurleiðinni flaug mér í hug, hvort minna yrði greitt fyrir ferð til Akraness en alla leið til Reykjavíkur. Hvort þeir reiknuðu út loftlínuna eða lengd akvegar. Kannski verður beiðninni hafnað á einhverjum forsendum sem mig órar ekki fyrir.

Ég bíð í ofvæni með stafinn í hægri og liðskipta næsta vors.

Gleðilegt sumar

bogi