Makrílfrumvarpið: Mikið högg segja Strandamenn

Frá Hólmavík. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Sjávarútvegsráðherra hefur lagt fram frumvarp um breytingu á lögum um úthlutun makrílkvóta. Það kemur í kjölfar dóma Héraðsdóms og Hæstaréttar sem komust að þeirri niðurstöðu að  íslenska ríkið bæri skaðabótaábyrgð á því fjártjóni sem fyrirtæki kynnu að hafa beðið af því að fiskiskipum í þeirra eigu var úthlutað minni aflaheimildum á árunum 2011–14 en skylt hefði verið samkvæmt lögum um veiðar utan lögsögu Íslands.

Umrædd lög kveða á um skyldu til þess að úthluta kvótanum ótímabundið í formi aflahutdeilda í samræmi við veiðireynslu þegar svo háttar til að sett er hámark á það sem veiða má og jafnfram er til veiðireynsla í viðkomandi fiskistofni. Það var ekki gert og ákveðið með reglugerð önnur skipting, sem meðal annars færði smábátum meiri hæut í veiðinni en hefði annars orðið.

Í frumvarpi sjávarútvegsráðherra er lagt til að úthluta aflahlutdeildunum miðað við aflareynslu síðustu 10 ára. Það hefur í för með sér að færður er kvóti að nokkru leyti til baka til þeirra útgerða sem fengu 2011 -2014 minna en lög kveða á um og að sama skipi eru aðrar útgerðir sem missa kvóta, einkum smábátar.

tvöfalt högg

Sveitarfélögin við Steingrímsfjörð í Strandasýslu, Drangsnes og Hólmavík,  sendu sameiginlega umsögn um frumvarpið þegar það var í samráðsgátt stjórnvalda.  Þar segir að afleiðingarnar yrðu þær að hlutur smábáta myndi minnka úr 4% af heildaafla í 2% eða um helming. Það yrði mikið högg fyrir útgerðirnar sem myndi leiða til annars áfalls vegna minnkandi vinnslu á makríl.

Ályktunin í heild:

Sveitarfélögin Strandabyggð og Kaldrananeshreppur mótmæla harðlega þeim stutta umsagnartíma sem þetta frumvarp fær og óska hér með að sá tími verði lengdur, svo að tími gefist til að afla nauðsynlegra gagna.

Sú ákvörðun að miða við 11 ára aflareynslu hefur þau áhrif að smábátaútgerðir taka á sig nærri helmings skerðingu eða úr tæplega 4% heildarafla í 2%. Enginn vafi er á því að um mikið högg yrði að ræða fyrir útgerðir í þeim byggðarlögum sem að mestu byggja á smábátaútgerð. Það á bæði við aflamissi með tilheyrandi tapi útgerða og hafna en einnig um alla vinnslu á svæðinu. Því er í raun um tvöfallt högg að ræða.

Smábátaútgerðir hafa lagt í miklar fjárfestingar á búnaði til krókaveiða á  makríl, sem er mun vistvænni veiðiskapur, í samræmi við stefnu stjórnvalda og umhverfisvottun Vestfjarða. Makríll veiddur af smábátum sem gerðir eru út við Steingrímsfjörð hefur allur verið unnin í heimabyggð. Því myndi breytingin hafa mikil áhrif á afleidd störf í byggðarlögum sem eiga á brattan að sækja. Við teljum þetta frumvarp vera enn eina aðgerðina til að bregða fæti fyrir smærri sveitarfélög á landsbyggðinni og höfnum því þess vegna alfarið

 

Fyrir hönd  sveitarfélagana Strandabyggðar og Kaldrananeshrepps

Ingibjörg Benediktsdóttir oddviti Strandabyggðar

Finnur Ólafsson oddviti Kaldrananeshrepps

DEILA