Kalkþörungaverksmiðjan : stækkun kallar ekki á umhverfismat

Hvorki umhverfis- og framkvæmdanefnd Ísafjarðabæjar né skipulags- og mannvirkjanefnd telja að fyrirhuguð framleiðsluaukning kalkþörungaverksmiðjunnar á Bíldudal þurfi að fara í umhverfismat. Þetta kemur fram í fundargerðum nefndanna nú í vikunni og er svar við fyrirspurn Skipulagsstofnunar.

Óskað hefur verið eftir heimild til þess að auka framleiðslu verksmiðjunnar úr 85 þúsund tonnum a ári upp í 120 þúsund tonn, en námurnar eru í Arnarfirði og á Ísafjarðarbær land að Arnarfirðinum. Með aukningunni er stefnt að bættri nýtingu á framleiðslugetun verksmiðjunnar.

Skipulags- og mannvirkjanefndin bendir á í afgreiðslu sinni „að vegna fyrri vandamála vegna rykmengunar, þá sé mikilvægt að tíðni mælinga sé aukinn á meðan nýr hreinsibúnaður er tekin í notkun, einnig eftir að fullri starfsemi er náð. Þannig að tryggt verði að starfsemin uppfylli kröfur starfsleyfis að losunarmörk verði undir viðmiðunarmörkum.“

Í afgreiðslu umhverfis- og framkvæmdanefndar segir að nefndin telur að nægjanlega hafi verið gerð grein fyrir framkvæmdinni, umhverfi hennar, mótvægisaðgerðum og vöktun, og telur „nefndin telur framkvæmdin því ekki háða mati á umhverfisáhrifum að teknu tilliti til innsendra gagna og viðauka 2 í lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000.“