Ísafjörður: afreksfólk hjá bænum heldur launum

Þessi fjögur hafa verið valin til landsliðsæfinga.

Sigríður Lára Gunnlaugsdóttir, framkvæmdastjóri Héraðssambands Vestfirðinga segir að hún sé mjög ánægð með samþykkt bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar á erindi HSV frá desember síðastliðinn, þar sem farið var fram á að  komið yrði til móts við ungt afreksfólk í sveitarfélaginu á aldrinum 14-21 árs með sumarvinnu.

Ástæða erindisins er að ungt afreksfólk í íþróttum sem valið hefur verið til að keppa fyrir landslið Íslands í sinni íþróttagrein er gjarnan upptekið stóran part sumars í æfinga og keppnisferðum. Sú fjarvera frá heimabyggð veldur þeim erfiðleikum við að stunda vinnu vegna fjarvista og einnig er erfitt að fá vinnu þegar fyrirséð er að viðkomandi þurfi mikið frí til að sinna ástundun og æfinga- og keppnisferðum.

Bæjarstjórnin afgreiddi málið í síðasta mánuði eftir umfjöllun um það í íþrótta- og tómstundanefnd bæjarins. Varð niðurstaðan sú að láta málið ná bæði til íþrótta og listgreina.

Samþykktin er svohljóðandi:

Íþrótta- og tómstundanefnd leggur til við bæjarstjórn að komið verði til móts við ungt afreksfólk á aldrinum 14-21 árs á sviðum íþrótta og listgreina í sveitarfélaginu, sem starfa hjá sveitarfélaginu, þannig að þau verði ekki fyrir tekjutapi vegna þátttöku sinnar í verkefnum eða keppni á sínu sviði fyrir Íslands hönd. Frekari útfærsla verði í höndum forstöðumanna.

Sigríður Lára segir að ekki sé vitað með vissu hve margir geta fallið undir samþykktina, en hvað íþróttirnar varðar benti  hún á að fimm  hefðu verið valdið í unglingalandslið í körfuknattleik og ein í knattspyrnu.

DEILA