Ísafjarðarbær lagfæri bryggjuna í Bæjum

Kirkjan í Unaðsdal. Dalbær fjær. Mynd : Kristinn H. Gunnarsson.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar tók fyrir í gær á fundi sínum erindi frá Engilbert S. Ingvarssyni frá Tyrðilmýri á Snæfjallaströnd, þar sem óskað er eftir því að Ísafjarðarbær láti framkvæma aðkallandi viðferð á bryggjunni við Bæi á Snæfjallaströnd. Leggur Engilbert til að sótt verði um styrk vegna verksins úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða og að Ísafjarðarbær greiði það sem ekki fæst greitt úr opinberum sjóðum.Í bréfi Engilberts er minnt á að Snæfjallaströnd er hluti af Ísafjarðarbæ og innheimt séu fasteignagjöld af eignum þar. Segist Engilbert vera einn af níu fasteignaeigendum á Snæfjallaströnd sem noti íbúðarhús á sumrin, en auk þess er hlunnindabúskapur í Æðey og ferðaþjónusta í Dalbæ.

Bryggjan í Bæjum var byggð 1945 og er enn mikið notuð þótt ekki sé lengur heils árs búseta á Snæfjallaströnd. Lítið viðhald hefur verið á bryggjunni í mörg ár.

Bæjarráðið fól bæjarstjóra að vinna málið áfram, eins og það er bókað.

DEILA