Eyrarskjól stækkun: fyrsta skóflustunga í morgun

Fyrsta skóflustunga að nýrri viðbyggingu leikskólans Eyrarskjóls á Ísafirði var tekin með viðhöfn klukkan 10 í dag. Eftir kynningu Daníels Jakobssonar, formanns bæjarráðs Ísafjarðarbæjar, tóku stunguna hinn tæplega 101 árs gamli Karl Sigurðsson frá Hnífsdal og fulltrúar fyrsta útskriftarárgangs Eyrarskjóls; Elísa Stefánsdóttir, Friðrik Hagalín Smárason, Sigríður Gísladóttir og Þorkell Þórðarson. Viðstaddir voru starfsmenn og nemendur af Eyrarskjóli sem hafa verið að fylgjast með framkvæmdum af skólalóðinni sinni og hætta því varla núna.

Daníel Jakobsson sagði í samtali við Bæjarins besta að það væri gleðilegt að koma af stað verkefni sem hefði verið lengi á teikniborðinu. Því hefði verið frestað síðustu ár, ár frá ári. Hann sagði að með stækkuninni kæmu 30 ný pláss og bærinn færðist þá nær því markmiði sínu að geta tekið við 12 mánaða gömlum börnum á leikskóla.

Með viðbyggingunni mun aðstaða starfsfólks batna verulega, að sögn Daníels og nýting húsnæðisins verður betri. Gert er ráð fyrir að nýbyggingin verði tekin í noktun eftir um það bil eitt ár.

Myndirar tók Axel Rodriguez Överby.

DEILA