Byggðakvóti : túlkunin er tonn á móti tonni

Frá Þingeyrarhöfn Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Ísafjarðarbær hefur fengið svör frá Fiskistofu og Atvinnuvegaráðuneytinu um það hversu miklum afla útgerði eigi að bæta við hvert tonn af byggðakvóta sem hún fær og veiðir. Það voru fimm útgerðarmenn á þingeyri sem óskuðu eftir því að bærinn fengi skýr svör um þetta atriði þar sem þeir töldu sig hafa fengið misvísandi svör.

Í svörum Fiskistofu segir að umrædd 6. grein reglugerðar  nr. 685/2018 komi fram að „landa þarf tvöföldu aflamagni til vinnslu skv. vinnslusamningi fyrir það magn aflamarks sem sóst er eftir að fá úthlutað sem byggðakvóta. Þegar upp er staðið hefur útgerð þá lagt til eigin aflamark til að veiða aflann til vinnslu en hún fær síðan úthlutað aflamarki sem nemur helmingi þess aflamarks sem nýtt var við veiðarnar.“

Fiskistofa segir þetta þýða að þegar útgerð hafi landað einu tonni til vinnslu þá geti hún fengið hálft tonn af kvóti á móti og að þessi framkvæmd sé  í samræmi við framvæmd úthlutunar á byggðakvóta undanfarin ár. Lýsing  Hólmgeirs Pálmasonar fyrir hönd Þingeyringanna sé samkvæmt þessari framkvæmd.

Í bréfi Atvinnuvegaráðuneytisins er  staðfest  „að túlkun Fiskistofu er í samræmi við ákvæði 6. gr. reglugerðar nr. 685/2018 um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa. þ.e. þegar upp er staðið er verið að landa til vinnslu tonni af eigin kvóta og tonni af byggðakvóta, sem aftur þýðir að ef bátur er með loforð um byggðakvóta uppá 5 þorskígildistonn, þarf að landa samtals 10 þorskígildistonnum til vinnslu í viðkomandi byggðarlagi.“

 

 

DEILA