27,7% kennara réttindalausir á Vestfjörðum

Hagstofa íslands greindi frá því í gær að á Vestfjörðum hafi verið hæst hlutfall starfsfólks við kennslu án réttinda í grunnskólum á Vestfjörðum, eða 27,7%.

Haustið 2018 voru 12,4% af 5.311 starfsmönnum við kennslu án kennsluréttinda á landinu öllu. Þá voru 657 starfsmenn við kennslu án kennsluréttinda og hafði fjölgað um 214 frá hausti 2017. Hlutfall réttindalausra kennara var því í fyrra ríflega tvöfalt hærra en landsmeðaltalið.

Lægst var hlutfall starfsfólks við kennslu án kennsluréttinda á Norðurlandi eystra, þar sem 9,1% starfsmanna við kennslu voru án réttinda, og í Reykjavík, 9,3%.

Á árunum 1998-2008 var hlutfall starfsfólks án kennsluréttinda við kennslu í grunnskólum landsins á bilinu 13-20%. Eftir efnahagshrunið fækkaði réttindalausum kennurum og fór hlutfall þeirra lægst í 4,1% haustið 2012. Síðan 2012 hefur kennurum án kennsluréttinda fjölgað ár frá ári.

Nemendur í grunnskólum aldrei fleiri
Nemendur í grunnskólum á Íslandi voru 45.904 haustið 2018 og hafa aldrei verið fleiri. Nemendum fjölgaði um 709 (1,6%) frá fyrra ári.

Mikil fjölgun starfsfólks við stuðning frá 1998
Haustið 2018 störfuðu 8.473 starfsmenn við grunnskóla á Íslandi, 345 fleiri en haustið 2017 (4,2% fjölgun). Sé litið aftur til ársins 1998, þegar gagnasöfnun Hagstofu um grunnskólann hófst, hefur stuðningsaðilum nemenda fjölgað verulega. Þroskaþjálfum hefur fjölgað hlutfallslega mest, úr 29 í 213 haustið 2018. Stuðnings- og uppeldisfulltrúum hefur fjölgað úr 247 í 1.161. Fjöldi sérkennara og skólasálfræðinga/námsráðgjafa hefur meira en tvöfaldast á þessu sama tímabili. Ef tekið er mið af öllum starfsmönnum grunnskóla, hefur starfsmönnum fjölgað um 39,1% frá hausti 1998 en á sama tíma hefur nemendum fjölgað um 8,2%.

DEILA