West Seafood: gjaldþrotabeiðni hjá dómara

Beiðni fyrirtækis á Ísafirði um að West Seafood á Flateyri verði tekiðð til gjaldþrotaskipta er til athugunar hjá Héraðsdómi Vestfjarða og búist er við úrskurði dómara næstu daga.

Karl Brynjólfsson, framkvæmdastjóri West Seafood staðfestir við Bæjarins besta að annar bátur fyrirtækisins, Hafrún ÍS 54 hafi verið seldur til þess að losa um fjármagn.  Fékk fyrirtækið annan línubát frá Stakkavík í Grindavík í staðinn en sá var seldur á mánudaginn.  Segir Karl ennfremur að fyrirtækið sé að fá „30 tonna alvöru bát, mun stærri og öflugri sem verður kominn vonandi á laugardag / sunnudag, fer eftir veðri.“ en ekki sé „létt að finna gott húsnæði á Flateyri eins og stendur til leigu fyrir áhöfnina en það er samt á lokametrunum.“

Daníel Jakobsson, formaður bæjarráðs svaraði því til aðspurður um hver staða byggðakvótans á Flateyri væri við þessar aðstæður, að hann hefði ekki þekkingu á þessum samningum, t.d. hvort Byggðastofnun gæti rift samningnum en verið væri að skoða þetta.

DEILA