Vísindaportið : Gerð stjórnunar- og verndaráætlana

Í Vísindaporti vikunnar föstudaginn 15. mars mun Kristín Ósk Jónasdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun fjalla um gerð stjórnunar- og verndaráætlana. Nýverið tók gildi áætlun fyrir friðlandið á Hornströndum og verður sjónum sérstaklega beint að gerð hennar. Farið verður yfir samráðsferlið, en myndaður var samstarfshópur sem í sátu aðilar á vegum landeigenda, Ísafjarðarbæjar og Umhverfisstofnunar. Þá mun Kristín fjalla um það hvaða breytingar þessi áætlun hefur í för með sér. Svæðið var friðlýst árið 1975 með það fyrir augun að vernda og varðveita fyrir komandi kynslóðir svæði sem býr yfir einstakri náttúru og dýralífi og þar sem kyrrð ríkir og innviðir eru ekki áberandi. Ferðavenjur hafa breyst mikið á undanförnum árum og umferð um svæðið aukist. Markmið með gerð stjórnunar- og verndaráætlun er að leggja fram stefnu um verndun friðlandsins og hvernig viðhalda skuli verndargildi svæðisins.
Kristín Ósk Jónasdóttir hefur starfað hjá Umhverfisstofnun frá haustmánuðum 2017. Hún er fædd og uppalin á Ísafirði, með meistarapróf í opinberri stjórnsýslu og framhaldsgráðu í náms- og starfsráðgjöf en í grunninn er hún grunnskólakennari. Um nokkurra ára skeið starfaði Kristín sem kennslustjóri við Háskólasetrið.
Vísindaportið fer fram í kaffistofu Háskólaseturs kl. 12:10-13 og eru allir velkomnir.
DEILA