Vestfjarðabækurnar gera það gott í Laugardalnum

Þessa dagana stendur yfir á Laugardalsvellinum í Rvk. stóri Bókamarkaðurinn hjá Félagi íslenskra bókaútgefenda. Þar kennir ýmissa grasa að vanda. Vestfjarðabækurnar frá Vestfirska forlaginu eru þar á sínum stað. Er forlagið með á annað hundrað titla um Vestfirði og Vestfirðinga.

Að sögn Hallgríms Sveinssonar, léttadrengs Vestfirska forlagsins, stendur markaðurinn til 10. marz. Segir hann að ýmsar ritraðir héðan að vestan, svo sem Hjólabækurnar, Hornstrandabækurnar, Mannlíf og saga fyrir vestan, Vestfirðingar til sjós og lands, 100 Vestfirskar gamansögur og Gullkorn og grín að vestan, seljist alltaf vel. Margar mjög merkar bækur eru á tombóluverði hjá forlaginu, allt niður í 499,- kr. Er það gert til að minnka lagerinn í kjallaranum á Þingeyri.

Fulltrúar Vestfirska forlagsins á Laugardalsvellinum eru þau hjónin Guðrún Magnúsdóttir, sjúkraliði úr Bolungarvík og Jens S. Kristleifsson, kennari.  Jens lagði gjörva hönd að lagningu fyrstu veganna í Djúpinu og á Barðaströnd með foreldrum sínum, Kristleifi Jónssyni, vegaverkstjóra og Sigríði Jensdóttur, ráðskonu.