Vestfirska vísnahornið 14.mars 2019

Horft út Ísafjarðardjúp. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Vísnahornið byrja á því að gefa Jóni Atla Játvarðssyni orðið. Hann tekur fyrir formenn ríkisstjórnarflokkanna og lýsir vegferð þeirra í samstarfinu:

Bjarni er miðpunktur manna vænna,
mjakar sér fram á brún.
Með verkfæratösku Vinstri grænna
af vonleysi full er hún.

 

Katrín af bjartsýni fikrar sig fram
fílar að leggj’ á skatt.
Spennandi finnst nú að spila damm
og spillingu gleyma hratt.

 

Sigurður Ingi á vondum vegi
villst hefur fram á nótt.
Bíður við póst eftir björtum degi
og beljunum ekki rótt.

 

Indriði á Skjaldfönn er næstur með vandað ljóðabréf að venju þar sem víða er komið við:

Hér er nýbúið að telja fóstur í ánum af Heiðu á Ljótarstöðum í Skaftártungu en Steinunn Sigurðardóttir skráði 2016 ævisögu Heiðu, sem var metsölubók. Jón Viðar Jónmundsson, búfjárfræðingur skrifaði ritdóm og komst svo að orði: að Heiða hefði gert bændastéttinni meira gagn og álitsauka með bókinni en samanlagðri bændaforystunni um áraraðir hefði tekist.

Heiða á kostum leikur létt.

Lyftir undir sína stétt.

Vinnur meiri þarfa þar

en þúsund bændaforingjar.

 

Öfugmælavísur eru of lítið tíðkaðar. Hér eru tvær vísur um Vigdísi Hauksdóttur borgarfulltrúa Miðflokksins í Reykjavík. Lesendur verða sjálfir að velja um það hvor er nær sanni.

Vigdísar ei sólin sest.

Snilldar takta kenni.

Göfug málblóm gróa best

í garðinum hjá henni.

 

Í ráðhúsinu brag er breytt

í böl með nýju sniði.

Því Vigdís iðkar yfirleitt

enga mannasiði.

 

Þótt forsætisráðherra okkar sé talinn með 20 áhrifamestu konum á jarðríki virðist Bjarni fara sínu fram og hefur algerlega gefið Kristjáni Þór lausan tauminn samanber hvalveiðileyfið og meira en vafasaman matvælainnflutning bæði fyrir menn og skepnur.

 

Stjórnar nú er voðinn vís

þeir vinstri tökum glata.

Etur það sem úti frýs

auminginn hún Kata.

 

Áfram skal haldið með kvenþjóðina. Þegar Sólveig Anna í Eflingu hafði lagt Auðvaldið fyrir Félagsdómi rifjaðist upp fyrir mér vísa, sem að afi minn Indriði á Ytra-Fjalli orti upp úr aldamótunum 1900, þegar Suður Þingeyskir glímukappar gengu í slæmri vetrarfærð til Akureyrar til keppni þar, en höfðu ekki erindi sem erfiði.

Það má segja um þessa menn

þeir eru ekki latir.

Tölta dægrin tvenn og þrenn

til að liggja flatir.

 

Hallmundur Guðmundsson flettismettisvinur fékk þessa heilræðavísur vegna ferðar sinnar í sólina á Stóru-Hundaeyju.

Á Kanarí eru margir að leika á landann,

ljúga og pretta, selja þér allan fjandan.

Árinn hann Bakkus er ýtinn með gildrur og hrekki.

Ertu með hatt svo sólin brenni þig ekki?

 

Eftir Kastljós um vændi með Brynjari Níelssyni þar sem jafnvel stjórnandinn var kjaftstopp var ekki hjá því komist að tjá sig aðeins.

 

Bugast ekki Brynjar Ní,

brattur á vegi hálum.

Langbestur þó er hann í

öllum kvennamálum.

 

Þetta mee too frekju fár

fer í karlsins sinni.

Lausn svo honum líði skár

að loka kerlur inni.

 

Frændi minn rifjaði upp vísu sem ég víst ber ábyrgð á, Jón Baldvin var ein fremsta frelsishetja Litháa á sínum tíma og fékk verðskuldaða viðurkenningu þarlendra fyrir en um það leyti vorum við íslenskir bændur ekki jafnhrifnir af Jóni.

 

Litháa er ljúft og skylt að hylla.

langt var þeirra frelsisstríð og göfugt.

En alltaf fannst mér ferleg þeirra villa

að fest kross á Jón, en ekki öfugt.

 

Sú ákvörðun meirihluta Súðavíkurhrepps að velja ekki þann sveitarstjórnarkandidat sem talinn var hæfastur getur varla talist traustvekjandi.

Sýnist mér ei Súðavík

sérstaklega gæfurík.

Stýra ekki störfum má

stórhæfastur Kristinn H.

 

Látu þetta verða lokin á vísnaþættinum að þessu sinni.

Kristinn H. Gunnarsson.

 

 

 

 

DEILA