Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, tilkynntu í dag um úthlutun til uppbyggingar innviða og annarra verkefna á 130 fjölsóttum stöðum í náttúru Íslands og á öðrum ferðamannastöðum vítt og breitt um landið. Markmiðið er halda áfram þeirri miklu uppbyggingu innviða sem hafin er til verndar náttúru landsins og menningarsögulegum minjum, sem og uppbyggingar ferðamannastaða.
Saman tilkynntu ráðherrarnir um úthlutun á rúmum 3,5 milljörðum króna á næstu þremur árum. Á sama tíma er áætlað að verja 1,3 milljörðum króna sérstaklega til landvörslu.
Þetta er í annað sinn sem kynnt er sameiginlega um úthlutun úr Landsáætlun um uppbyggingu innviða og Framkvæmdasjóði ferðamannastaða.
Lansgstærsta upphæðin rennur til verkefna á Suðurlandi eða 1.860 milljónir króna á þessu tímabili.
Á Vestfjörðum eru settir peningar í sjö verkefni og nemur heildarfjárhæðin um 203 milljónum króna. Rúmur helmingur fjárhæðarinnar fer til uppbyggingar á Dynjanda í Arnarfirði í nýtt salernishús og lagnir, umbætur á göngustíg frá bílastæði og nýir útsýnispallar. Til þjónustuhúss við Litlabæ í Skötufirði er ráðstafað um 36 milljónum króna.