Sundkonan Kristín skrifar

Kristín Þorsteinsdóttir, sunddrottning á Ísafirði setti inn hjá sér skemmtilega færslu í tilefni af Downs deginum. Að fengnu samþykki er hún birt hér á bb.is.

 

Halló allir.
Það er langt síðan sett hefur verið einhverjar fréttir af mér hér inn og er kjörið að nýta daginn okkar sem erum með Downs að skella á ykkur smá fréttapistli.
En ég hef verið í smá pásu frá keppni undanfarna mánuði, ég var orðin svolítið keppnisþreytt og ákváðu þjálfari minn og foreldrar að kominn væri tími á smá hvíld.
Ég hef samt ekki slegið slöku við varðandi æfingar og hef staðið mig vel í að mæta á þær. Nú í janúar byrjaði ég einnig að mæta í líkamsræktina með þjálfara og erum við að leggja áherslur á æfingar varðandi snerpu og þol. Þetta tímabil hefur verið mjög skemmtilegt en ég viðurkenni pínu erfitt, brjálað að gera.
Sundæfingar 3 sinnum í viku, líkamsrækt 2 sinnum og þrekæfing 1 sinni. Ásamt vinnu alla daga vikunnar frá 8 til 12. Heimilisstörfin og öll þau námskeið sem Fræðslumiðstöðin hér á Ísafirði hafa boðið mér að taka þátt í og ég verið duglega að sækja. Öryggisnámskeið, dans-, söng-, föndur o.m.fl.
En það sem er að frétta hjá mér varðandi næstu keppnisferð, þá er ég að fara til Englands núna í byrjun apríl og ætla að taka þátt í sundmóti þar. European Downs Syndrome Open Svimming Competition 2019. Þetta er keppni í 25m laug og hefur Svala þjálfari minn skráð mig í 7 greinar, þannig að það verður tekið á því þessa helgi. Ég vona bara að þetta komi til með að ganga vel, að pásan hafi ekki alveg slökkt á mér. Ég geri allavega mitt besta, lofa því. Einnig lofa ég að minna Svölu á að vera dugleg að setja fréttir af mótinu þegar að því kemur.

Svo læt ég fylgja smá auka hér með.
Eins og allar keppnisferðir þá kostar þessi fullt af peningum og þar sem ég er alltaf eini sundkeppandinn frá Íslandi með Downs sem sækir mót erlendis er enginn möguleiki á að deila kostnaði fyrir þjálfara- og fylgdarmann. Fjáraflanir leggjast á fáar hendur sem gera þær frekar erfiðar, en fyrir þessa ferð ætlar fjölskyldan mín að hjálpa mér með flöskusöfnun.
Ef þú átt flöskur sem þú ert tilbúin að gefa mér og býrð í næsta nágrenni við mig hafðu þá endilega samband og við sækjum eða tökum við þeim þegar þér hentar 

Í tilefni dagsins í gær, 21. mars, set ég þessa mynd með sem tekin var af okkur vinnufélögunum.

Bestu kveðjur,
Kristín 😊

DEILA