Stéttarfélögin mikilvægur bakhjarl

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um fréttir vikunnar, við höfum öll fylgst grannt með falli WOW air og erum að reyna að gera okkur grein fyrir afleiðingunum. Uppgjörið við þetta ævintýri allt saman kemur á síðari stigum en einmitt núna snúa áhyggjur okkar allra að starfsfólkinu sem missir vinnuna, hvort sem er hjá WOW eða fyrirtækjum sem byggja afkomu sína á þjónustu í kringum flugferðir eins og hópferðabílstjórar, hlaðmenn, ræstingafólk, verslunarfólk og fleiri.

Í dag hef ég setið fundi með fyrrum starfsfólki WOW air, bæði hjá Flugfreyjufélagi Íslands og VR en það eru stéttarfélög stærstu hópana sem misstu vinnu vegna gjaldþrots WOW. Fjölmargar spurningar vakna og ótti um að geta ekki framfleitt sér og sínum er auðvitað ráðandi. Að auki veltir fólk fyrir sér í hvaða stöðu það er vegna náms með vinnu, töku fæðingarorlofs o.s.frv. Það er á þessum stundum sem það skiptir öllu máli að eiga bakhjarl í sínu stéttarfélagi sem mun á næstu dögum og vikum svara öllum þessum spurningum og liðsinna sínu fólki um kröfur í þrotabú og umsóknir atvinnuleysisbóta.

Það skiptir líka miklu máli að undanfarin ár hafa réttindi úr atvinnuleysistryggingasjóði og
ábyrgðasjóði launa verið styrkt til muna sem kemur sé vel þó að um sé að ræða tímabundna aðstoð.
Auk þess bárust slæmar fréttir í dag af öðrum fyrirtækjum sem þó virðast ætla eftir fremsta megni að milda höggið með því að endurskipuleggja vaktir, endurráða starfsfólk eða segja upp viðbótarsamningum í stað fjöldauppsagna svo eitthvað sé nefnt. Vel er fylgst með því að fyrirtæki séu ekki að nota gjaldþrot WOW sem fyrirslátt fyrir kjaraskerðingu en auðvitað er staðan alvarleg víða.

Við þau sem hafa misst hafa vinnuna vil ég segja: Aflaðu upplýsinga um réttindi þín, sérstaklega hvað varðar uppsagnarfrest. Ekki hika við að hafa samband við stéttarfélagið þitt, öll félögin setja allt púður í aðstoð við sína félagsmenn í erfiðum aðstæðum og það er þinn réttur að fá leiðbeiningar.
Heimasíður stéttarfélaganna, ASÍ og Vinnumálastofnunar hafa að geyma verðmætar upplýsingar sem verða uppfærðar jafn óðum. Við vitum að það er áfall að missa vinnuna en samfélagið stendur sterkum fótum og það er ekki ástæða til að óttast langtíma atvinnuleysi.

Kveðja,
Drífa Snædal

foreti ASÍ

DEILA