Skipulagði heimsókn atvinnuveganefndar Alþingis til Noregs

Þorleifur Ágústsson ásamt atvinnuveganefnd Alþingis.

Dr. Þorleifur Ágústsson aðstoðaði atvinnuveganefnd Alþingis við skipulagningu ferðar nefndarinnar til Noregs á dögunum sem farin var í því skyni að kynna sér fiskeldi. Í samráði við ritara nefndarinnar setti Þorleifur saman viðmikla dagskrá með það í huga að nefndin fengi að sjá og heyra um flestar hliðar eldisins.  Dr. Þorleifur er nú búsettur í Stavanger í Noregi þar sem hann starfar hjá NORCE og er öllum hnútum kunnugur í norsku laxeldi.

Þorleifur sagði í samtali við Bæjarins besta að nefndin hafi fengið kynningu á öllum hliðum málsins.  Dagskráin hafi verið sett saman með það í huga að nefndin fengi að sjá og heyra um flestar hliðar eldisins ásamt því að heyra frá DNB og PWC um fjárhagslegar hliðar og aðkomu banka og fjármálafyrirtækja.

„Í heimsókninni fengu nefndarmenn mikilvægar upplýsingar beint frá eldisaðila um t.d. vandamálin og það sem þeir hafa þurft að gera til að fyrirtækið geti dafnað – lítið fjölskyldufyrirtæki sem nú er rekið af annarri og þriðju kynslóð.

Nefndin eyddi heilum degi á fyrirlestrum á ráðstefnunni (https://www.nor-seafood.com/) og fékk þar að kynnast nýungum í sjávarútvegi og fiskeldi.

Auk heimsóknar á landsbyggðina til að sjá fiskeldisstöð og veru á ráðstefnu – sat nefndin á lokuðum fundum hjá okkur á NORCE (www.norceresearch.no) með fulltrúum norsku Hafró, fiskistofu ásamt þeim aðilium sem bera ábyrgð á eftirliti með villtum laxastofnum á vestur og suðurströnd Noregs. Þar fékk nefndin langa fyrirlestra og kynningar um reglugerðir er lúta að leyfisveitingum og eftirliti – hvaða viðurlög gilda ef slíku er ekki fylgt. Ennfremur fékk nefndin góða yfirsýn yfir hvernig norska áhættumatið fyrir fiskeldi er unnið og ekki síst fékk nefndin upplýsingar um hvað er verið að gera í þróun eldisbúnaðar sem mótvægisaðgerðir gegn slysasleppingum. Niðurstöður nýrrar stórrar rannsóknar voru kynntar er fjalla um samfélagsleg áhrif fiskeldis og hvernig Norðmenn og Írar líta fiskeldi – bæði fólk á landsbyggðinni og í þéttbýli. Til fróðleiks má nefna að Hafró á Íslandi hefur einmitt leitað til NORCE um kennslu í hvernig á að bregðast við þegar eldislax fer í ár á Íslandi.

Að loknum fundum með ofangreindum aðilum var Umhverfisdrottning (https://www.facebook.com/Miljodronningen/) heimsótt – en það er nafn skips í eigu róttækra umhverfissamtaka í Bergen. Þar hélt formaður félagsins og stofnandi þrumandi ræður og sýndi glærur um skaðsemi eldis í gegnum árin – og fékk til þess þann tíma sem hann þurfti til. Mjög áhugavert og ekkert dregið úr í neikvæðum lýsingum á áhrifum fiskeldis á lífríkið. Síðar um daginn bættust fleiri slíkir í hópinn.“

Þorleifur var inntur eftir harðri gagnrýni sem komið hefur fram hér á landi frá fulltrúum veiðifélaga á það að nokkrir íslenskir fiskeldismenn hafi verið með atvinnuveganefndinni í einhverjum dagskrárliðum ferðarinnar.

„Það að nokkrir íslenskir fiskeldismenn sláist í för þegar verið er að heimsækja eldisaðila – dagspart – er auðvitað í besta lagi – enda var öllum sem sýndu áhuga velkomið að slást í för.“ segir Þorleifur. Þá segir hann að fiskeldismenn hafi ekki verið þátttakendur í dagskrá þingnefndrinnar nema að litlu leyti og fjarri öllu lagi að halda því fram að þeir hafi stjórnað ferðinni. Þorleifur Ágústsson sagði að lokum að ferðin hafi verið vel heppnuð og vonandi muni það skila sér í góðu starfi Alþingis.

DEILA