Sjóstangveiði – 90% þegar bókað í sumar

Róbert Schmidt með 28 kg þorsk.

Iceland Profishing hf gerir út 16 Seiglubáta og 14 sumarhús sem skiptist á Flateyri og Suðureyri. Bókanir hafa gengið vel fyrir komandi vertíð og eru  tæplega 90%  nú þegar bókað og hefur aldrei verið betra. Samtals eru bókaður um 900 gestir.

Róbert Schmidt frá Suðureyri er rekstrarstjóri Iceland Profishing hf.  Hann segir að fyrirtækið hafi verið að endurnýja vélarnar í bátaflotanum og nú verða settar nýjar 140hö Volvo Penta vélar í fjóra báta. Þá verður búið að endurnýja 12 af 16 vélum og vélskiptum lýkur á næsta ári.  Unnið var að endurbótum á öllum húsum fyrirtækisins  á síðasta ári, þau öll máluð að innan og keypt ný sófasett í öll húsin og annar húsbúnaður endurnýjaður. Í sumar stendur til að mála öll húsin að utan.

Róbert segir að veiðin hafi gengið vel í fyrra en þá landaði fyrirtækið á annað hundrað tonn af sjóstangaveiddum fiski. Þyngsti þorskurinn vó rúm 33 kíló. Þjóðverjar eru meirihluti gesta en Bretar sækja nú á og von er á amk 8-10 hópum frá Bretlandi í sumar sem er  metaðsókn þaðan. Einnig eru veiðimenn frá Austurríki, Póllandi og öðrum Evrópulöndum.  Hóparnir kaupa 8-9 daga ferðapakka þ.e. bátur, hús, bíll, millilanda og innanlandsflug. Stærð hópa er yfirleitt á bilinu 3-5 veiðimenn í hóp. Konum hefur einnig fjölgað en stundum koma hópar vestur eingöngu skipuðum konum.

Fyrirtækið fékk útlutað nýjum uppsáturssvæðum í fyrrasumar, á Flateyri og Suðureyri, þar sem bátarnir standa í dag. Lýðháskólinn á Flateyri leigir sumarhús fyrirtækisins á Flateyri yfir vetrartímann og hefur samstarfið gengið mjög vel á milli Iceland Profishing hf  og skólans að sögn Róberts.

DEILA