Jónas Guðmundsson, forsvarsmaður Samgöngufélagsins á Vestfjörðum hefur sent inn umsögn um frumvarp til nýrra umferðarlaga, dags. 11. mars sl., og leggur til að breytt verði ákvæðum um heimilaðan ökuhraða í þá veru að hámarkshraði á vegum með malarslitlagi verði lækkaður úr 80 km í 70 km á klst en jafnframt verði heimilaður allt að 100 km hraði á klst á þeim vegum sem nýjastir eru og besti úr garði gerðir og þar sem umferð telst lítil.
Segir í umsögn félagsins að ekki geti talist vit í því að heimila nánast sama hraða á annnars vegar gömlu vegunum um t.d. Dynjandisheiði eða í Gufudalssveit og hins vegar hinum nýju vegum milli t.d. Vattarfjarðar og Kollafjarðar á sunnanverðum Vestfjörðum eða í Ísafirði í Ísafjarðadjúpi. „Telja verður að breytt hraðamörk séu meira í samræmi við raunhraða á vegunum og stuðli að aukinni skilvirkni samgangna og auknu umferðaröryggi.“
Umsögnin er afar ítarleg og vikið er að ýmsum ákvæðum frumvarpsins, auk þeirra sem eru um hámarkshraða.
Meðal annars er lagst gegn því að lækka lækka mörk heimilaðs áfengismagns í blóð ökumanna úr 0,5 pr.mille í 0,2 pr.mille. Segir að þessi breyting kalli væntanlega á talsvert meiri vinnu lögreglu við eftirlit og eftirfylgni. „Í meirihluta Evrópuríkja er miðað við hærri töluna. Verður að teljast heppilegast að fylgja fordæmi flestra annarra þjóð í kringum okkur. Hugsanlega mættu miða lægri mörkin við stærri ökutæki, akstur í atvinnuskyni og þá sem eru með bráðbirgðaskírteini eins og sums staðar er gert.“
Nálgast má umsögnina á vef Alþingis hér https://www.althingi.is/thingstorf/thingmalin/erindi/?ltg=149&mnr=219