Vegagerðin opnaði í gær veginn norður í Árneshrepp. Eva Sigurbjörnsdóttir oddviti segar fremur lítill snjór sé um þessar mundir og gengið hafi vel að opna veginn. Helst er það yfir Veiðileysuhálsinn sem snjóalög teppa veginn.
Vefurinn Litlihjalli í Árneshreppi segir að mokað hafi verið báðum megin frá, að sunnan- og að norðanverðu.
Nú verður sú breyting á miðvikudaginn á samgöngum á landi við Árneshrepp að reglubundinn snjómokstur hefst að nýju og verður mokað á þriðjudögum og fimmtudögum ef þurfa þykir og veður leyfir.
Ómskoðun
Guðbrandur Þorkelsson bóndi á Skörðum Dalasýslu kom norður þegar vegur opnaðist í gær til að ómskoða og telja fósturvísa hjá bændum í Árneshreppi. Litli hjalli segir frá þessu. Ómskoðunin er til að telja fósturvísa í ám til að vita hvaða ær verði tvílembdar eða einlembdar og jafnvel þrílembdar eða hvað er mikið gelt, á komandi vori í sauðburðinum. Við talninguna er notuð ómsjá.