Öll vötn til Dýrafjarðar – rökstuðningur með styrkjum

Frá afhendingu styrkjanna. Mynd: Agnes Arnardóttir.

Verkefnið öll vötn til Dýrafjarðar veitti í vikunni 16 styrki samtals að upphæð 7 milljónir króna eins og greint hefur verið frá á bb.is. Úthlutunarnefndin gerði grein fyrir ákvörðun sinni með sérstökum rökstuðningi.

Alls bárust  29 umsóknir. Heildarumfang verkefna er umsóknir lutu að voru um 120 milljónir. Sótt var um rúmlega 30 milljónir. Þá segir í greianrgerð verkefnisstjórnar: „Allt voru þetta umsóknir sem féllu vel að verkefninu Öll vötn til Dýrafjarðar en eins og gefur að skilja þá var ekki til fjármagn til að úthluta til allra í þessari umferð. Reynt var að velja sem fjölbreyttust verkefni og m.a. var stuðst við stigagjöf eftir mat á tilteknum þáttum. Þeir aðilar sem sendu inn umsóknir núna en fengu ekki úthlutað, verða hvattir eindregið til að senda þær aftur inn í næstu úthlutun. Einnig verða þessir aðilar hvattir til að sækja um í aðra sjóði sem gætu vel fallið að þeirra verkefni og áformum. Stefnt er að því að auglýsa eftir umsóknum strax aftur eða núna í mars 2019 með úthlutun í apríl.“

Styrkhæf verkefni eru rannsóknar-, þróunar- og nýsköpunarverkefni þar sem markvisst er stefnt að markaðssetningu nýrrar eða endurbættrar vöru eða þjónustu. Enn fremur samfélagseflandi verkefni önnur en þau sem teljast til lögbundinna og/eða hefðbundinna verkefna ríkis eða sveitarfélaga.

Rökstuðingurinn fyrir styrkveitingu í þremur hæstu styrkjunum er eftirfarandi:

Verkefni ÖVD – 18033 Pálmar Kristmundsson – The Tank

Verkefnið er að byggja “The Tank”, samkomustað, opinn almenningi, mannvirki, sem gert er að megin hluta úr tveimur helmingum olíutanks, sem áður stóð á Þingeyri. Hönnun “Tankans” er höfundarverk japanska arkitektsins Yasuaki Tanago, sem hefur dvalið á Þingeyri í nokkur skipti og unnið að hönnun “tankans”. Annar hluti olíutankans myndar þak yfir samkomustað fyrri almenning og er borinn uppi af þremur grjóthnullungum. Hinn hlutinn er að hluta niðurgrafinn og myndar veggi í hring og hallandi gólf, án þaks, þar sem sem safnast má saman og horfa til himins. Bæði rýmin eru opin og óupphituð.

Markmið verkefnisins er að byggja kennileyti, samkomustað fyrir íbúa jafnt sem aðkomufólk, einskonar tákn fyrir samfélag í vexti.

Þetta áhugaverða verkefni hefur verið á dagskrá um nokkra hríð og verkefnisstjórn telur að það geti skapað skemmtilegt aðdráttarafl fyrir íbúa og gesti á Þingeyri.

Samþykkt að styrkja verkefnið um kr. 1.000.000,-

Verkefni ÖVD – 18038 Samfélagsmiðstöðin á Þingeyri ses (Blábankinn) – Stafrænir flakkarar og störf án staðsetningar

Markaðssetning með alþjóðlegum samstarfsaðilum á Þingeyri og norðurslóðum fyrir störf án staðsetningar. Sótt er um styrk fyrir verkefninu „stafrænir heimskautaflakkarar”, eða þeim hluta þess sem snýr að Þingeyri. Verkefnið er svar við þeirri þróun að bæði hefðbundnar atvinnugreinar sem og nýjar eru í auknu mæli unnar gegnum tölvu þar sem staðsetning skiptir ekki máli. Þá eru ný störf og atvinnuvegir oftar að byggja á hugviti og mannauði, en í minna mæli á staðsetningu náttúruauðlinda eða fjárfestingu í hlutum.

Markmið verkefnisins er að fleiri fari að líta á það sem möguleika að búa og starfa á Þingeyri og að störf án staðsetningar, hvort sem er til skemmri eða lengri tíma, verði aðlaðandi og áhugaverður kostur fyrir komandi kynslóðir.

Verkefnisstjórn tekur undir rökstuðning umsækjanda og telur verkefnið áhugavert innlegg í þá viðleitni að koma Þingeyri á kortið sem áhugaverðum dvalar og búsetukosti fyrir þá sem eiga þess kost að starfa án tillits til staðsetningar.

Samþykkt að styrkja verkefnið um kr. 1.000.000,-

Verkefni ÖVD – 18003 Golfklúbburinn Gláma Þingeyri/Hjalti Proppé – Aðstaða Golfklúbburinn Gláma

Verkefnið fellst í að koma upp aðstöðu á golfvellinum þar sem eingin slík aðstaða er fyrir hendi. í aðstöðunni fellst c.a. 15 fermetra hús með salernis aðstöðu sem klúbbmeðlimir og aðrir gestir golfvallarinns geta notað.

Markmið verkefnisins er að koma golfklúbbnum Glámu aftur af stað og virkja klúbbinn með betri aðstöðu og auka þar með afþreyingu fyrir heimamenn og ferðamenn.

Verkefnisstjórn telur verkefnið hafa mikið gildi fyrir útivist og afþreyingu í héraðinu.

Samþykkt að styrkja verkefnið um kr. 980.000,-

 

DEILA