Lýðháskólinn á Flateyri: auglýsir eftir nemendum á næsta starfsári

Lýðháskólinn á Flateyri hefur gengið vonum framar á þessum fyrsta starfsári skólans. Fjárhagslegur grundvöllur er nokkuð tryggur í náinni framtíð. Næsta skref er að auglýsa eftir nemendurm.  Auglýst hefur verið eftir nemendum á haustönn 2019 og er umsóknarfrestur til 15. júní næstkomandi. Afgreiðsla umsókna hefst 10. apríl og verða umsóknir sem berast fyrir þann tíma settar í forgang. Eftir það verða umsóknir afgreiddar jafnóðum og þær berast.

Hver sem náð hefur 18 ára aldri við upphaf námsannar getur sótt um skólavist við Lýðháskólann á Flateyri.

Í auglýsingunni koma fram atriði sem eru óhefðbundinn fyrir skóla, svo sem þessi:

Það er mikilvægt að þú sért opin/n fyrir nýjum upplifunum og því að reyna á þig við aðstæður sem þú hefur ekki verið í áður. Að þora að stökkva – það er viðhorfið sem gildir

Athugaðu að aðeins lítill hluti af námi við námsbrautina Hafið, fjöllin og þú fer fram innandyra, í hefðbundinni kennslustofu. Við verðum mikið úti, í öllum veðrum og stundum við líkamlega krefjandi aðstæður. Og við munum stunda líkams- og hugarrækt, útivist og fjallamennsku af miklum móð. Við slíkar aðstæður er nauðsynlegt að vera hreyfanleg og til í ýmislegt.

DEILA