Ísborg ÍS 250 er 60 ára í dag

Ísborg ÍS 250 Mynd: Jón Ölver Magnússon.

Fyrir 60 árum sigldi m/s Hafþór NK 76  til hafnar í Neskaupstað. Frá þessu er sagt í blaðinu Austurlandi þann 21. mars 1959.  segir að margt manna hafi verið samankomið til þess að fagna komu skipsins.

Hafþór var eitt af 12 austur þýskum skipum sem voru smíðuð í Stralsund sérstaklega fyrir Íslendinga. Þau voru stundum kölluð tappatogarar.

Í blaðinu Austurlandi er skipinu svo lýst:

„Skipið er teiknað af Hjálmari Bárðarsyni, skipaskoðunarstjóra ríkisis. Það er 250 rúmlestir með 800 hestafla Mannheim vél, togvinduvél, sem er 220 hestafla, General Motor vél, og ljósavél, sem er af austur-þýzkri gerð, 120 hestöfl. Frá þessum vélum hverri fyrir sig er hægt að fá ljós og hita um allt skip. í skipinu eru m. a. þessi siglingartæki: 3 dýptarmælar, astichtæki, sendi- og móttokutæki og miðunarstöð, öllum þessum tækjum er komið fyrir í
stjórnklefa og í korta- og radíóklefa.

I skipinu eru alls íbúðir fyrir 21 skipverja. Fram í eru 3 klefar og er þar rúm fyrir 14 manns.
Aftur í skipinu eru 4 klefar, sem eru ætlaðir sex mönnum og í brú er íbúð skipstjóra. Allar eru íbúðir skipverja með handlaugum með heitu og köldu vatni. 3 rúmgóðir snyrtiklefar eru í skipinu, einn við íbúð skipstjóra, annar undir hvalbak og sá þriðji undir keys.

Undir hvalbak er netageymsla, lifrarbræðsla og snyrtiklefi. Fiskilest skipsins er útbúin með kælikerfi svo er allstórt rúm útbúið sem beitugeymsla og er hún útbúin sérstöku frystikerfi. Lestir eru einangraðar og klæddar innan með aluminium, skilrúm og hylluborð eru einnig úr aluminium. I keis er komið fyrir frystivélum skipsins, þar er einnig þurrkklefi ásamt snyrtklefa. Aftast á keis er eldhús og matsalur skipshafnarinnar, en í matsal geta samtímis
matazt 11 manns. Eldhúsið er útbúið með rafmagnseldavél. Aftast á skipinu er stórt og rúmgott beitningarskýli. Togvinda skipsins er stór og öflug, smíðuð í Vestur-Þýzkalandi. Akkerisvinda, línuspil og losunarspil eru öll vökvadrifin, þau eru framleidd í Danmörku.“

Skipstjóri var Steinn Jónsson frá Eskifirði.

Hafþór NK heitir nú Ísborg ÍS 250, heimahöfn þess er Ísafjörður og eigandi er Sólberg ehf sem er í eigu Arnars Kristjánssonar.

Það er núna skráð 227 brúttórúmlestir, 356 brúttótonn  og 39,4 metrar að lengd.

Í bók Hjálmars R. Bárðarsonar um austur þýsku skipin og Svíþjóðarbátana segir að skipagerðin og stærðin hafi verið nýjun í íslenska skipaflotanum og hafi reynst „vel, bæði fengsæl, sterkbyggð og góð sjóskip.“

Útgerð Einars Guðfinnssonar í Bolungarvík fékk fyrsta skipið,Sólrúnu ÍS 399 og  keypti síðan tvö hinna skipanna þegar tækifæri bauðst og notaði þau öll til landróðra segir einnig í bók Hjálmars.

DEILA