Flaggskip Vestra í körfunni gerði það gott

Flaggskipið, B-lið meistaraflokks karla í körfuknattleik , mætti liði Grundarfjarðar í 3. deild karla í gær í Bolungarvík. Fyrri leik liðana í vetur endaði með miklum úthaldssigri Flaggskipsins eftir tvær framlengingar.

Sigrinum eru gerð vegleg skil á síðu Vestra og er nákvæm lýsing á frækinni frammistöðu piltanna:

Gestirnir byrjuðu talsvert betur og komust í 13-4 á fyrstu mínútunum með góðri hittni fyrir utan þriggja stiga línunnar. Gunnlaugur Gunnlaugsson og Guðmundur Auðun Gunnarsson komu þó Vestra aftur inn í leikinn og staðan eftir fyrsta leikhluta var 18-21.

Eftir að gestirnir höfðu sett fjórar þriggjastiga körfur í fyrsta leikhluta þá voru skilaboðin skýr fyrir þann næsta. Mæta skyttunum þeirra fyrir utan. Það fór þó inn um annað eyrað og út um hitt því Grundfirðingar jörðuðu 5 þriggja stiga körfum í leikhlutanum auk nokkura langskota og komust mest 9 stigum, 32-41, yfir í leikhlutanum. Vestramenn náðu þó aðeins að laga stöðuna fyrir lok hans og staðan í hálfleik var 37-43.

Birgir Örn Birgisson, þjálfari Flaggskipsins, sá til þess í hálfleik að skipanir sínar færu ekki framhjá neinum Musterinu í Bolungarvíkinni enda var það allt annað og einbeittara lið Vestra sem mætti í seinni hálfleik. Daníel Wale Adeleye, sem hafði fylgt stigakóngi 1. deildarinnar eins og skugginn í leik A-liðsins deginum á undan, var eins og þröngur frakki á leikstjórnanda Grundfirðinga í seinni hálfleik og tók hann algjörlega úr umferð, en sagan segir að Daníel hafi enn verið að pressa hann þegar hann reyndi að komast í liðsrútuna að leik loknum. Leikur gestana riðlaðist allur í kjölfarið og uppskáru Vestramenn fjölmarga stolna bolta og auðveld hraðaupphlaup í kjölfarið en þriðji leikhluti endaði 24-11 fyrir heimamenn og staðan fyrir loka leikhlutan 61-54 fyrir Vestra.

Í fjórða leikhluta fóru gestirnir að koma boltanum meira undir körfuna á bræðurna Guðna og Sæþór Sumarliðasyni og uppskáru þeir fjöldan af villum á varnarmenn Vestra í kjölfarið. Það dugði þó skammt og uppskar Flaggskipið að lokum öruggan 81-67 sigur.

Hjá Vestra var Gunnlaugur Gunnlaugsson með stórleik en hann skoraði 32 stig. Guðmundur Auðun Gunnarsson kom næstur með 19 stig.

DEILA