Bæjarins besta hefur um skeið leitað eftir svörum frá formanni Náttúruverndarsamtaka Íslands, Árna Finnssyni, við því hvers vegna samtökin eru andvíg laxeldi í sjó og hvers vegna náttúruverndarsamtökin standa að að kærum til dómstóla og til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál með hagsmunaaðilum á hendur laxeldisfyrirtækjum og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Þann 21. janúar voru fyrirspurnirnar sendar til Árna Finnasson og bárust daginn eftir þau svör að hann gæti ekki svarað af persónulegum ástæðum en myndi senda svar eins fljótt og hann kæmi því við.
Fyrirspurnirnar voru ítrekaðar þann 17. febrúar og aftur þann 28. febrúar og engin svör hafa borist.
Náttúruverndarsamtök Íslands hafa ásamt fleirum höfðað mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur gegn íslenska ríkinu og vestfirsku laxeldisfyrirtækjunum til ógildingar á rekstrarleyfi til bráðabirgða sem veitt var eftir að Alþingi setti lög sem heimiluðu það. Fleiri dómsmál og kærur eru í gangi fyrir atbeina Náttúruverndarsamtaka Íslands.
Með fyrirspurnunum er leitast við að fá fram rökstuðning fyrir stefnu samtakanna.