Ekkert rekstrarleyfi enn 4 árum eftir starfsleyfi

Arctic Fish hefur ekki enn fengið rekstrarleyfi fyrir 4.000 tonna regnbogasilungseldi í Ísafjarðardjúpi nærri fjórum árum eftir að Umhverfisstofnun gaf út starfsleyfið.

Þetta kemur fram í gögnum sem lögð hafa verið fyrir Umhverfis- og framkvæmdanefnd Ísafjarðarbæjar.

Á fundi nefndarinnar í fyrradag var lagður fram tölvupóstur frá  Matvælastofnun, dags. 13. mars sl., þar sem óskað er umsagnar Ísafjarðarbæjar vegna útgáfu rekstrarleyfis fyrir Arctic Sea Farm vegna sjókvíaeldis að Snæfjallaströnd, Ísafjarðardjúpi.

Saga málsins er sú að í desember 2013 var Skipulagsstofnun sent erindi og tilkynnt um áform um 4.000 tonna eldi við Sandeyri.Í mars 2014 komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að ekki þyrfti að fara í umhverfismat og Umhverfisstofnun gaf út starfsleyfi þann 1. apríl 2015. Matvælastofnun á næsta leik og gefur út rekstrarleyfi, en erindi frá MAST berst ekki Ísafjaraðrbæ fyrr en í þessum mánuði þar sem beðið er um umsögn um áformin.

Umhverfisnefndin gerir ekki athugasemd við málið, en er nokkuð forviða yfir þeim drætti sem orðinn er á leyfisveitingunni samanber bókun nefndarinnar:

„Umhverfis- og framkvæmdanefnd gerir ekki athugasemd við veitingu leyfisins út frá umhverfissjónarmiðum og vísar í starfsleyfi Umhverfisstofnunar frá 2015. Nefndin lýsir yfir undrun sinni á fyrirkomulagi leyfisveitinga í fiskeldi og bendir á þá staðreynd að hér er verið að veita umsögn vegna sex ára gamallar umsóknar, en samkvæmt gildandi lögum um fiskeldi skal samtímis veita umsækjanda starfsleyfi og rekstrarleyfi sem er klárlega ekki verið að gera í þessu tilfelli. „

DEILA