Bolungavík: Mikil uppbygging innviða í ferðaþjónustu

Með myndarlegri styrkveitingu Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða til undirbúnings að útsýnispalli á Bolafjalli er ljóst að mikil uppbygging er að eiga sér stað í Bolungavík og Skálavík á aðstöðu og þjónustu í ferðaþjónustu.

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri segir að útboð á útsýnispallinum verði í haust og ráðgert verður að ljúka verkinu á næsta ári.

Þá verði boðnar út fyrir páska endurbætur á aðstöðu fyrir ferðamenn í Skálavík. Um er að ræða að koma upp hreinlætisaðstöðu og haf avatn og rafmagn ásamt einhverri jarðvinnu. Jón Páll segir að miðað sé við að þjónusta ferðamenn sem koma til skemmri dvalar, eina eða tvær nætur, en geta með því að vera i Skálavík upplifað að nokkru leyti friðsemdina og einveruna sem einkennir friðlandið norðan Djúps.

Kostnaður er áætlaður um 12 milljónir króna og Framkvæmdasjóður ferðamannastaða veitti í fyrra styrk til verksins.

Þá er komið á langtímaframkvæmdaáætlun Kaupstaðarins að reisa nýtt þjónustuhús í Ósvör. Þar verður hreinlætisaðstaða, aðstaða fyrir starfsmenn og plás fyrir minjagripasölu. Kostnaður er áætlaður um 25 milljónir króna. Í Ósvör koma 8000- 10.000 ferðamenn árlega.

Nýlega lauk viðmiklum framkvæmdum til úrbóta á tjaldstæðinu við Íþróttamiðstöðina Árbæ. Þar var svæðið lagfært og komið upp góðri aðstöðu innanhúss fyrr ferðamenn þar sem þeir komast í vatn, rafmagn, þvottavél og geta farið í sturtu.

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri segir að grunnatriði í ferðaþjónustu hafi verið að batna mikið og segja má að um byltingu sé að ræða. Bæjaryfirvöld geri ráð fyrir verulegri fjölgun ferðamanna á næstu árum í kjölfar þessarar innviðauppbyggingar.

„Það verður mikil uppbygging innviða í ferðaþjónustu í Bolungavík“ segir Jón Páll.

 

DEILA