Aukin orkuframleiðsla á Vestfjörðum eykur afhendingaröryggið

Mynd: RUV.

Í morgun kom út skýrsla um flutningskerfi raforku á Vestfjörðum þar sem afhendingaröryggið er greint. Niðurstaðan er að afhendingaröryggið er lakast á Vestfjörðum. Þar eru flestar straumleysismínútur, en þeim hefur þó fækkað eftir að dísilvaraaflstöðvarnar voru teknar í notkun í Bolungavík.

Skýrslan sýnir að ef til kemur aukin raforkuframleiðsla í Ísafjarðardjúpi og Ófeigsfirði mun tengipunktur í Ísafjarðardjúpi og svo tenging við Mjólkárlínu 1 bæta afhendingaröryggið í öllum þeim kostum sem athugaðir eru. Eins mun tenging frá tengipunkti til Ísafjarðar bæta afhendingaröryggið.

Í skýrslunni er möguleikinn á að reisa snjallvaraaflstöð á sunnanverðum Vestfjörðum skoðaður en það mundi bæta verulega afhendingaröryggið á Keldeyri og Mjólká en hefur hvorki áhrif á aðra afhendingarstaði á Vestfjörðum né á Vesturlínu. Hringtengingarnar innan Vestfjarða, bæði minni og stærri hringur, hafa báðar mikil áhrif á Keldeyri en á öðrum afhendingarstöðum eru áhrifin minni.  Áhrif mögulegrar nýrrar virkjunar á svæðinu voru skoðuð með mögulegum tengipunkti í Ísafjarðardjúpi og með tengingu þaðan í Kollafjörð á Barðaströnd. Tengipunktur í Ísafjarðardjúpi gefur líka möguleika til frekari styrkinga í flutningskerfinu á norðanverðum Vestfjörðum og möguleika á tengingu um Hólmavík til Geiradals sem liður í tvöföldun tengingar til Vestfjarða, en auk þess gæti hann tengst dreifikerfi raforku í Ísafjarðardjúpi.

Sverrir Jan Norðfjörð framkvæmdastjóri þróunar- og tæknisviðs Landsnets segir að allir kostirnir hafi jákvæð áhrif inn á svæðið:

„ Þegar horft er á Vestfirði sem heild þá hafa þessar útfærslur sem fram koma í skýrslunni mismikil áhrif á afhendingaröryggi á svæðinu en allar hafa þær jákvæð áhrif til lengri tíma. Hvort sem um hringtengingu innan svæðisins verður að ræða, nýjar snjallvaraaflstöðvar eða nýtt eða aukið virkjunarafl. Þó þarf að hafa í huga að á Vestfjörðum eru sex afhendingarstaðir og hafa útfærslurnar mismikil áhrif á afhendingaröryggið á hverjum stað. „

Hér er hægt að nálgast skýrsluna.

AddThis Sharing Buttons

Share to LinkedIn

 

 

DEILA