Árás á fjárhagslegt sjálfstæði sveitarfélaga

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.

Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga brást hart við áformum fjármálaráherra um skerðingu á framlögum ríkisins til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Í harðorðri bókun stjórnarinnar frá 15. mars 2019 segir að stjórnin krefjist þess að teknar verði upp viðræður við fjármála- og efnahagsráðherra og ráðherra sveitarstjórnarmála. Leiði þær viðræður ekki til ásættanlegrar niðurstöðu fyrir sveitarfélögin, verði gripið til róttækra aðgerða af hálfu sambandsins.

Segir í bókun stjórnar m.a. að um einhliða aðgerð sé að ræða, sem gangi þvert á samstarf ríkis og sveitarfélaga í opinberum fjármálum. Ráðherra og ríkisstjórn hafi brugðist trausti sveitarfélaga á mjög alvarlegan hátt og veikt fjárhagslegan grundvöll þeirra, ekki aðeins gagnvart þeim þjónustuverkefnum sem jöfnunarsjóði er ætlað að standa undir, heldur einnig getu þeirra til að standa undir launakostnaðarhækkunum að kjaraviðræðum loknum. Þá er bent á, að aðgerðin hafi engin áhrif á heildarafkomu hins opinbera, enda þótt bæta megi afkomu ríkissjóðs með þessu móti á kostnað sveitarfélaganna.

Orðrétt segir á bókuninni:

Umrædd aðgerð felur í sér árás á sjálfsákvörðunarrétt og fjárhagslegt sjálfstæði sveitarfélaga. Hún veikir rekstrargrundvöll margra þeirra verulega og á sér ekki fordæmi í samskiptum þessara tveggja stjórnsýslustiga. Á sama tíma er fjárhagslegur grundvöllur sveitarfélaga víða í uppnámi vegna utanaðkomandi aðstæðna.“

Náist ekki ásættanleg lausn í viðræðum milli ríkisins og sveitarfélaganna verði gripið til róttækra aðgerða af hálfu sambandsins. Síðan segir:

„Gætu þær meðal annars falið í sér að fulltrúar sveitarfélaga hætti þátttöku í samstarfsverkefnum ríkis og sveitarfélaga og jafnframt að sambandið dragi sig út úr vinnu við gerð samkomulags á milli ríkis og sveitarfélaga á grundvelli laga um opinber fjármál.“

Í útreikningum sem Samband íslenskra sveitarfélaga hefur sent frá sér kemur fram að samkvæmt hugmyndum fjármálaráðherra munu framlög til sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu skerðast um 81,6 milljónir króna á árunum 2020 og 2021. Þar búa 225.209 íbúar. Á Vestfjörðum munu framlögin skerðast um 258,7 milljónir króna. Þar búa 7.051 íbúar.

Í tillögum ráðherrans er gert ráð fyrir að sveitarfélögin taki á sig byrðar til þess að mæta væntanlegum samdrætti í tekjum ríkisins vegna minnkandi hagvaxtar. Útdeiling byrðanna er hin svegar afar ójöfn eftir landshlutum eins og tölurnar bera með sér. Þannig mun Reykjavíkurborg aðeins missa 4,8 milljónir króna frá ríkinu á þessum tveimur árum en sveitarfélögin á Vestfjörðum munu tapa 258,6 milljónir króna. Tap Kaldrananeshrepps eins verður meira en tap Reykjavíkurborgar eða 4,9 milljónir króna.

Fjöldi íbúa í Kaldrananeshreppi er 104 samanborið við 127.219 í Reykjavík.

DEILA