Áhættumat Hafró: ýmsar breytur Hafró eiga ekki við rök að styðjast

Ólafur I. Sigurgeirsson.

Á kynningarfundi fiskeldisfyrirtækja í gær um fiskeldi á Íslandi kom fram nokkuð hörð gagnrýni á áhættumat Hafrannsóknarstofnunar frá Ólafi I. Sigurgeirsson, aðstoðarprófessor við Háskóla Íslands, fiskeldis- og fiskalíffræðideild.

Ólafur hefur áður sett fram ýtarlega gagnrýni á umrætt áhættumat og meðal annars sent inn í samráðsgátt stjórnvalda rökstudda greinargerð um málið.

Ólafur nefndi fyrst á fundinum í gær fullyrðingar um að laxeldið í Noregi hefði valdið því að villtir norskir hefðu hrunið.  Benti hann á að veiði úr laxastofnum hefðu minnkað mikið fyrir 1990, en þá var laxeldið í Noregi aðeins 200 þúsund tonn á ári eða aðeins 1/6 þess sem nú er. Sagði hann að laxastofnar í Atlandshafinu hefðu hrunið mest syðst í Atlandshafinu og stæðu einna best nyrst, sem er einmitt í Noregi. Sýndi hann svo glærur með upplýsingum um veiðar úr norsku laxveiðiánum sem sýndu að í lang aflamestu ánni, Tana, hefði aflinn minnkað mikið og það væri vegna ofveiði en í öðrum ám hefði veiðin aukist frá 1990.

Þannig að þessar upplýsingar gæfu til kynna að laxeldið hefði ekki valdið aflasamdrættinum í veiðum á villta laxinum. Þá væri sama þróun í Skotlandi, fallandi veiði frá 1970.

Um áhættumatið sagði Ólafur að það væri byggt á 11 breytum og svo væri fleiri breytur innan þeirra og ýmsar þeirra eiga ekki við rök að styðjast. Nefndi hann sérstaklega svokallaðan heimsæknistuðul sem væri ákveðinn 20% og sagði þessi tala ein hefði veruleg áhrif. Þá gagnrýndi hann líka ákvörðun Hafrannsóknarstofnunar um 5% endurheimtu gönguseiða sem viðmið. Það væru ekki mörg dæmi um svo háar endurheimtur og vísaði Ólafur í gögn sem sýndu að 1986-1991 hefði endurheimtur af hafbeit verið 0,68%. Rannsókn í Noregi hefpi leitt í ljós 0,36% endurheimtur. Tala Hafrannsóknarstofnunar um 5% styddist ekki við raungögn og sagði Ólafur vísindamenn stofnunarinnar svara því til þegar gengið væri eftir rökstuðningi að þetta væri vegna varúðarsjónarmiða. Ólafur I. Sigurgeirsson sagði ekki hafa neina þýðingu að stofna samráðshóp ef menn svöruðu svona.

Afleiðingarnar af þessum tölum sem Hafrannsóknarstofnun hefði sett inn í sitt áhættumatslíkan væru þær að Ísafjarðardjúp væri lokað fyrir laxeldi og eins svæði á Austurlandi. Samtals væri Hafrannsóknarstofnun að loka fyrir 61.000 tonna framleiðslu á þessum tveimur svæðum á grundvelli reikningskúnsta. Verðmæti þeirrar framleiðslu jafngildi 2/3 af verðmæti alls þorskafla upp úr sjó.

Í þriðja lagi benti Ólafur á gögn um minnkandi hæfni eldislax til þess spjara sig í villtu umhverfi og nú væri komnar svo margar kynslóðir eldislaxa að hæfni þeirra væri orðin afar slök og því væri áhættan af erfðablöndun hverfandi og benti á að nú fyndust engin merki um blöndum milli stofna laxa hér á landi þrátt fyrir viðmiklar sleppingar sem væru taldar í milljónum seiða í fjölmargar ár um langt árabil og spurðu hvers vegna menn héldu að að langræktaður eldislax sem væri orðinn húsdýr ætti að geta útrýmt eða stórskaðað villta stofna.

DEILA