Áfellisdómur yfir íslenskum stjórnmálum

Dómur Mannréttindadómstóls Evrópu er alvarlegur áfellisdómur yfir landlægum ómálefnalegum ákvörðunum í íslenskum stjórnmálum sem hafa einkum snúist um áhrif og úthlutum verðmæta, sérstaklega í formi eftirsóttra starfa.

Dómurinn segir skýrt að dómsmálaráðherra hafi brotið gegn ákvæði 6. greinar samningsins um verndun mannréttinda og mannfrelsis sem mælir fyrir um rétt hvers manns til réttlátrar og opinberrar málsmeðferðar innan hæfilegs tíma fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstóli, sem skipaður sé samkvæmt lögum.  Alþingi ákvað með lögum í maí 1994 að ákvæði samningsins skyldu hafa lagagildi á Íslandi.

Réttarríkið er undir

Berglind Svavarsdóttir, formaður Lögmannafélagsins segir í viðtali við Ríkisútvarpið að :

„Allir þeir sem þurfa sækja rétt sinn til dómstóla eiga rétt á því að það sé alveg ljóst að sá dómur sé löglega skipaður og að fólk eigi rétt á réttlátri málsmeðferð. Þetta er ein grundvallarreglan í okkar þjóðfélagi. Á þessu hvílir réttarríkið.“

Þetta er grunnatriði málsins. Réttarríkið er undirstaða hvers þjóðfélags og forsenda þess að íbúarnir geti búið saman í sæmilegri sátt og samlyndi. Það tryggir leikreglurnar sem leysa úr ágreiningsmálum með friðsamlegum hætti. Réttarríkið verður að hvíla á réttlæti sem íbúarnir una og treysta á. Ef einhver hluti stjórnkerfisins verður undirlagður fólki sem beitir óréttlæti, hyglar einum og hegnir öðrum þá verður friðurinn fljótt úti.

Þegar það gerist að sjálft dómskerfið bregst er voðinn vís. Hvergi er brýnna en einmitt þar að standa vörð um sanngjarnar og réttlátar leikreglur. Alvara málsins felst í því að virtasti dómstóll á þessu sviði í Evrópu segir fullum fetum að ríkið hafi brotið grundvallarregluna um réttláta meðferð þegar skipaðir voru dómarar við Landsrétt.  Það er ekki úr vegi að benda á að einn af fimm dómurum sem myndar meirihluta í þessu máli er Íslendingurinn Róbert Spano.

Mannréttindadómstóll Evrópu ógildir ekki dóma á Íslandi, en dæmir ríkið brotlegt og dæmir það til greiðslu skaðabóta. Dómurinn hefur samt mikil áhrif því hann leggur línurnar fyrir innlenda dómstóla þegar túlkuð eru ákvæði sáttmálans sem eru lög hér á landi. Upphafsorð laganna frá 1994 eru þessi: Mannréttindasáttmáli Evrópu hefur lagagildi á Íslandi.

Lög voru brotin 

Formaður Lögmannafélagsins telur að menn geti óskað eftir endurupptöku í málum sem tilteknir dómarar hafa staðið að að kveða upp í Landsrétti og farið fram á að þeir verði ógiltir. Hún segist ennfremur sjá fyrir sér að dómarnir í Landsrétti verði ógiltir. Svo það er deginum ljósara að afleiðingarnar eru gríðarlega alvarlegar.

Þarna liggur vandinn í því að ráðherrann breytti frá röðun hæfnisnefndar, setti fjóra af 15 á listanum út og tók aðra fjóra inn. Þessir fjórir sem nú eru dómarar við Landsrétt eru samkvæmt áliti Mannréttindadómstólsins og reyndar Hæstaréttar Íslands ekki skipaðir samkvæmt ákvæðum laga. Það þýðir að allir dómar  sem þessir fjórir koma að geta ónýst og ekki verðuð séð hvernig þeir geta starfað áfram við dóminn.

Ómálefnaleg og pólitísk dómaraskipan

Dómurinn segir að lagaákvæði hafi verið brotin og að framkvæmdavaldið (dómsmálaráðherrann) hafi beitt óviðeigandi geðþóttaákvörðun við val á dómurum og þar með hafi verið blandað saman pólitík og stjórnmálum þegar dómsmálaráðherrann felli fjóra umsækjendur af lista yfir 15 hæfustu umsækjendurna og setti aðra fjóra í staðinn. Rökstuðningur ráðherrans fyrir breytingunni fær í raun falleinkunn.  Það er bæði ráðherrann og meirihluti Alþingis sem fá á baukinn þar sem tillagan var samþykkt í atkvæðagreiðslu á þingfundi. Það er þetta sem Mannréttindadómstóllinn er að setja út á. Val á dómurum fór ekki eftir ákvæðum laganna og það hefur reyndar Hæstiréttur Íslands staðfest og val á fjórum dómurum er fremur pólitískt en faglegt.

Einn af þeim 15 hæfustu umsækjendunum var Ástráður Haraldsson, sem var um árabil virkur í starfi Alþýðubandalagsins áður en hann lagði lögmennsku fyrir sig og var auk þess fyrrverandi tengdasonur Svavars Gestssonar fyrrverandi formanns Alþýðubandalagsins. Það er hafið yfir allan skynsamlegan vafa að innan Sjálfstæðisflokksins var harður andróður gegn því að skipa „kommúnistann“ Ástráð sem dómara við Landsrétt og að honum var fleygt af listanum sem hæfnisnefndin hafði tekið saman af pólitískum ástæðum. Eftir þessa atburði hefur Ástráður Haraldsson fengið skipun sem héraðsdómari svo segja má að hörð viðbrögð  í þjóðfélaginu á þessum tíma hafi unnið bug á þessum pólitískum ofsa og leitt til þess að hinn hæfi umsækjandi hafi notið sannmælis.

Afleiðingarnar

Afleiðingar dómsins á mánudaginn  munu verða miklar. Uppkveðnir dómar eru í uppnámi. Það verður ekki lengur varið að nota ráðherravald til þess að skipa hentuga dómara. Þjóðfélagið mun ekki una því. Sjálfstæðisflokkurinn og aðrir þeir sem kunna að vilja viðhalda því gamla og úrelta kerfi eiga í engin hús að venda. Það verður skorið á milli stjórnmála og dómaraskipunar.

Dómsmálaráðherrann hefur sýnt af sér einbeittan vilja til þess að viðhalda þessari fornöld íslenskra stjórnmála og verðskuldar ekki að sitja áfram sem dómsmálaráðherra. Það verður að setja annan mann í það ráðuneyti. Það eru lágmarksbreytingar sem hægt er að una við. Sjálfstæðisflokkurinn og samstarfsflokkar hans verða  að sýna með óyggjandi hætti að þeir hafi sagt skilið við fortíðina í þessum efnum. Sérstaklega vegna þess að meira en þrjátíu þingmenn studdu pólitísku afskiptin með formlegri atkvæðagreiðslu fyrir fáum mánuðum. Þessi hópur þingmanna verður að sannfæra þjóðina um að þeir verji réttarkerfið fyrir pólitískum afskiptum. Aðskilnaður stjórnmála og dómaraskipunar er grundvallarkrafa. Um óbreytt ástand verður stöðugur ófriður.

Kristinn H. Gunnarsson.

 

DEILA